Skoðun

Kirkjan og Kristsdagur

Sunna Dóra Möller og Sigurvin Lárus Jónsson skrifar

Viðbrögð við hinum umdeildu hátíðum Friðrikskapelluhópsins svokallaða, Hátíð Vonar og Kristsdeginum, hafa verið hörð og hafa margir lýst áhyggjum sínum af þeirri vegferð sem Þjóðkirkjan er á í því samhengi. Við sem þennan pistil ritum deilum áhyggjum þeirra sem telja Þjóðkirkjuna ekki hafa átt að taka með beinum hætti þátt í þessum viðburðum og óttumst afleiðingar þess að leggja nafn sitt við boðun sem byggir á biblíufestu á borð við þá sem finna má á heimasíðu viðburðarins (kristsdagur.is).



Áhyggjur okkar snúast um þann stuðning sem þátttaka í þessum viðburðum felur í sér við þá hugmyndafræði sem er kynnt á heimasíðu hópsins. Bænaskjalið sjálft er einungis ein birtingarmynd þeirra áherslna en þar er eins og áður hefur verið orðað, stutt við íhaldssemi í siðferðisefnum með tilvitnunum í biblíugreinar að hætti bókstafshyggjumanna.



Þó hópurinn samanstandi af fólki úr ýmsum frjálsum söfnuðum, auk Þjóðkirkjunnar, er því lýst á heimasíðunni að hugmyndafræðin sé sótt til klausturhreyfingar í Darmstadt í Þýskalandi. Hreyfing þessi, Maríusystur, boðar yfirvofandi heimsslit og útvalningu Ísraelsþjóðarinnar en þættir gerðir af hreyfingunni hafa verið sýndir á sjónvarpsstöðinni Omega um árabil. Fyrirmynd Kristsdagsins er síðan samkvæmt heimasíðunni viðburður sem einstaklingum úr hópnum var boðið á í Sviss 2010 og var haldinn á vegum samtaka sem ber heitið Campus Crusade for Christ (Cru). Krossferðir þessar eru af meiði amerísks evangelisma að hætti Franklin Graham, og voru stofnaðar af hjónunum Bill og Vonette Bright.



Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir benti í Speglinum á Rás 1 (30. september) réttilega á að þátttaka Þjóðkirkjunnar í þessum viðburðum sé ,,ruglandi fyrir þann árangur sem hefur náðst á undanförnum árum og áratugum í starfi Þjóðkirkjunnar” fyrir auknum réttindum hópa sem hafa átt undir högg að sækja. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir þjóðina alla að ekki sé teflt í tvísýnu með þann árangur. Sé aðkomu kirkjunnar að þessum viðburðum ætlað að mæta þeirri krísu sem hún hefur staðið frammi fyrir á undanförnum misserum, er ljóst að það hefur mistekist. Ef Þjóðkirkjan leyfir sér að sýna stuðning við sértrúaráherslur á borð við þær sem Franklin Graham og Cru halda á lofti, gerir hún það á kostnað trúverðugleika síns sem frjálslynd Þjóðkirkja.



Prestar þjóðkirkjunnar eru, líkt og í sambærilegum kirkjudeildum Evrópu, háskólamenntaðir sjálfstæðir kennimenn sem takast á við trúarhefðina, kirkjuna og samfélagið í boðun sinni. Þar liggur styrkleiki þjóðkirkjunnar og veikleiki hennar. Prestar kirkjunnar koma ekki fram sem talsmenn kennivalds, leiðtoga, eða algilds lesturs á ritningunni, heldur sem sjálfstæðir þjónar lútersku kirkjunnar. Um presta gilda siðareglur, eins og aðrar fagstéttir, en túlkun þeirra og boðun byggir á köllun til þjónustu, sem er studd af  akademísku námi og faglegum vinnubrögðum.



Greinarhöfundur í Fréttablaðinu 1. október, Stefnir Snorrason, furðar sig á því að prestar Þjóðkirkjunnar ,,virðast varla geta komið sér saman um hverju eigi að trúa, eða hvernig á að biðja og um hvað, þjóðinni til heilla”. Ástæða þess er sú að prestar eru ekki bundnir af þeirri biblíufestu sem einkennir boðun amerískra evangelista heldur eru með orðum Lúters bundnir fyrst og fremst af eigin samvisku. Samviska okkar getur ekki í nafni samkirkjulegra sjónarmiða eða fjölmenningarraka umborið boðun sem beitir Biblíunni sem valdatæki. Amerískur evangelismi hefur skilað gríðarlegum árangri í fé og fylgismönnum, en árangur þeirra er á kostnað réttinda kvenna og hinsegin fólks og boðun þeirra ber með sér algild svör sem ekki má gagnrýna.


Tengdar fréttir

Þjóðkirkjuprestar undrast bæn um fóstureyðingar

Bænaskrá sem gefin var út fyrir Kristsdag sem haldinn var í Hörpu vakti undrun. Í einni bæninni var beðið fyrir breyttum viðhorfum til fóstureyðinga. Þjóðkirkjuprestur segir sláandi að verið sé að opna slíkt samtal.

Að beita fyrir sig bæn

Um liðna helgi blés sami hópur og fyrir ári hélt Hátíð vonar til hátíðarhalda, nú undir merkjunum Kristsdagur. Markmið þessa dags er "að kristnir einstaklingar úr sem flestum kirkjudeildum og sem víðast af landinu, sameinist í bæn fyrir landi og þjóð“.

Biskup vissi ekki um bænaskrá

Verkefnastjóri Biskupsstofu segir af og frá að þjóðkirkjan sé að kalla eftir breyttum viðhorfum til fóstureyðinga í samræmi við bænaskrá sem var gefin út fyrir Kristsdag. Biskup Íslands tók þátt í samkomunni en var ekki kunnugt um þessa bænaskrá.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×