Skoðun

300 þúsund er lágmark

Elsa Lára Arnardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar
Tryggja þarf öldruðum og öryrkjum 300 þúsund lágmarksgreiðslu á innan við 3 árum. Ríkisstjórnin á að stíga skrefið til fulls og tryggja þessum hópi þessa lágmarksframfærslu.

Dregið úr skerðingum

Ríkisstjórn Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins setti það í forgang að draga úr skerðingum sem bótaþegar sættu á síðasta kjörtímabili. Strax sumarið 2013 var afnumin sú regla að lífeyrissjóðstekjur skertu grunnlífeyri. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og öryrkja var hækkað. Frítekjumark vegna lífeyrissjóðatekna var hækkað.

Víxlverkunarsamkomulag vegna bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða var framlengt. Skerðingahlutfall tekjutryggingar var lækkað í 38,35 % þann 1. janúar 2014. Þetta þýðir að bætur eru nú 7,4 milljörðum króna hærri á ári en annars væri.

Bætur hækka afturvirkt

Þær aðgerðir sem snúa að almannatryggingakerfinu á þessu ári og því næsta eru að bætur munu hækka um 14,2 milljarða, þann 1. janúar 2016 sem er hækkun upp á 9,7 %. Inni í þeirri tölu eru 3,9 milljarðar sem er afturvirk hækkun vegna meðaltals launaþróunar á árinu. Sú hækkun bætist ofan á 4,3 milljarða sem aldraðir og öryrkjar fengu í janúar 2015. Samtals er því hækkun til málaflokksins vegna meðaltals launaþróunar á árinu 2015 8,2 milljarðar. Hækkun á bótum til aldraðra og öryrkja frá janúar 2015 – 2016 eru því samtals 18,5 milljarðar.

26,8 milljarða hækkun

Samtals skila aðgerðir á kjörtímabilinu því að bætur á næsta ári verða 26,8 milljörðum hærri en þær hefðu annars verið. Það eru 26,8 milljarðar sem fara beint til aldraða og öryrkja, samtals 17,1 % hækkun. Í lokafjárlögum síðustu ríkisstjórnar nam heildarfjármagn til almannatrygginga 77 milljörðum. Í fjárlögum núverandi ríkisstjórnar nemur heildarfjármagn 103 milljörðum.

Margt hefur verið gert, en við verðum að halda áfram að gefa í. Þess vegna ítrekuðu þingmenn ríkisstjórnarinnar það í störfum þingsins núna í morgun að ríkisstjórnin eigi að tryggja öldruðum og öryrkjum 300 þúsund lágmarksgreiðslu á innan við 3 árum.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×