Skoðun

Grafarholtið er umkringt skriðdrekum

Illugi Jökulsson skrifar
Gott fólk. Reynið að ímynda ykkur hvernig börnunum okkar myndi líða ef hér brytist skyndilega út óskiljanleg grimmileg borgarastyrjöld. Grafarholtið væri umkringt skriðdrekum. Í Vesturbænum stæði hreinlega ekki steinn yfir steini. Allir íbúar Ísafjarðar hefðu hrakist á flótta. Á Egilsstöðum væri barist hús úr húsi. Á Hellu hefðust börnin við í húsarústum, klæðlítil án matar, allir fullorðnir á brott.

Þessi sýn er skelfileg og við getum þakkað fyrir að hún verður ekki að veruleika. En í Sýrlandi er einmitt þetta veruleiki milljóna barna.

Og þótt Sýrland sé fjarri, þá eru öll þau börn sem búa við þessar aðstæður einnig börnin okkar.

Nú stendur yfir söfnunarátak sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF á Íslandi, og Fatímusjóðurinn standa saman að. Þann sjóð stofnaði móðir mín, Jóhanna Kristjónsdóttir, fyrir áratug og hefur haldið úti af miklum myndarbrag með fleira góðu fólki. Ég vil eindregið hvetja fólk, nei, eggja fólk lögeggjan að taka þátt í söfnuninni en henni er sérstaklega ætlað að hjálpa sýrlensku flóttabörnunum til þess sem líkist eitthvað eðlilegu lífi með því að gera þeim kleift að ganga í skóla í flóttamannabúðunum þar sem þau hafast við.

Með því að senda sms-ið BARN í símanúmerið 1900 gefur þú 1.490 krónur sem duga fyrir pakka af skólagögnum fyrir sýrlenskt flóttabarn. Eða leggðu frjálst framlag inn á reikning Fatímusjóðsins: 0512-04-250461 kt. 680808-0580. Það er margt hægt að gera; í dag er til dæmis hægt að skreppa niður í Hörpu í Reykjavík og tefla snarpa skák við Hrafn bróður minn sem þar situr að maraþon-tafli og safnar í leiðinni framlögum. Þar eru líka til sölu ýmsar af vinsælum bókum móður minnar og fleira gott.

Já, þetta er mergurinn málsins. Við horfum á fréttirnar af skelfingum líkt og í Sýrlandi og höldum að við hér getum ekkert gert. En við getum í rauninni ýmislegt gert.

Leggjum lið. Hjálpum börnunum okkar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×