Skoðun

Í spreng á Mývatnshringnum

Úrsúla Jünemann skrifar
Hvað fær gömlu konuna á níræðisaldri til að skríða undir hliðið þar sem menn eiga að borga fyrir afnot salerna? Nei, hún ætlar svo sannarlega ekki að svindla sér inn. Þetta gerði hún í algjörri neyð, var hvorki með kort né krónur og varð að komast á klós­ettið. Hvað gerir leiðsögumaður ef eldri maður spyr hvort hann megi pissa úti í móa, hann geti ekki haldið í sér lengur? Jú, leiðsögumaður kinkar kolli vandræðalega, hvað er hægt að gera annað?

Skemmtiferðaskipum fjölgar frá ári til árs. Oft eru þau þrjú og jafnvel fleiri á sama degi. Farþegum er boðið upp á dagsferðir og oft er prógrammið stíft og tímaramminn þröngur. Þá þarf leiðsögumaður að halda vel á spöðunum þannig að allt gangi upp. Aukapissustopp við einhverja sjoppu þar sem er einungis eitt klósett er ekki inni í dæminu, það þýddi strax töf um hálftíma.

Um daginn fór ég „sprenghring“ í kringum Mývatnið. Fimm og hálfur tími átti að duga til þess. Kaffistopp var á áætlun þremur og hálfum tíma eftir brottför frá höfninni og einasta tækifærið til að komast á salerni á undan var í Dimmuborgum. Og þar er þetta hlið sem hleypir fólkinu einungis inn gegn greiðslu. Skipafarþegar sem stansa stutt hér á landi eru upp til hópa ekki með íslenskar krónur og oft með kortin sín á skipinu. Klárlega vantar upplýsingar frá skipinu um hvernig klósettmálin standa víða á vinsælum ferðamannastöðum.

Eldra fólk, sérstaklega konur, þarf einfaldlega að komast oftar á salernið. Væri það mikið mál að setja upp nokkur færanleg klósett á aðalstoppistöðvunum? Þetta reynist ágætlega til dæmis á Djúpalónssandi á Snæfellsnesi. Það er ekki spurning að við Mývatn ætti slíkt að vera í boði við Námaskarð og í Dimmuborgum. Aðila sem græða á tá og fingri á ferðamönnum munar ekkert um að splæsa í nokkra kamra og halda þeim við.

Ástandið eins og það er núna er alveg ólíðandi og ég skammast mín fyrir landið okkar þegar mér er gert að fara með ferðamenn í svona sprengferð.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×