Skoðun

Erlendir ferðamenn vilja íslenskt lambakjöt

Svavar Halldórsson skrifar
Margt hefur breyst í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum. Hingað liggur stöðugur straumur ferðamanna með tilheyrandi umsvifum. Á sama tíma skipa samfélagsmiðlar og snjalltæki sífellt stærri sess í lífi okkar flestra. Með þeirra hjálp getum við ennþá betur komið á framfæri réttum skilaboðum um hreinleika okkar einstæðu náttúru og gæði þeirra frábæru matvæla sem hún færir okkur.

Öflugt samstarf

Fyrir rúmu ári tók markaðsstofan Icelandic lamb til við að kynna lambakjöt og aðrar íslenskar sauðfjár­afurðir fyrir erlendum ferðamönnum. Komið hefur verið á samstarfi við um 110 veitingastaði og sérverslanir sem setja lambakjöt í öndvegi. Rekin er öflug markaðsherferð á netinu þar sem myndböndum og öðru efni er dreift á samfélagsmiðlum til að kynna þjóðarréttinn fyrir þeim gestum sem hingað koma.

Öll markaðssetningin er undir sérstöku merki Icelandic lamb. Samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði í nóvember og desember þekkja 27% erlendra ferðamanna merkið. Það er miklu betri árangur á einu ári en nokkur þorði að vona. Af þeim sögðust líka 73% hafa mjög eða nokkuð jákvætt viðhorf til merkisins. Neikvætt viðhorf mældist ekki.

54% borða lambakjöt

Gallup spurði líka hvort ferðamennirnir hefðu borðað lambakjöt á Íslandi. Í ljós kom að 50% borða lambakjöt á veitingastöðum en 13% borða lambakjöt sem keypt er í búð. Skörun er á milli þessara hópa en samtals borða 54% þeirra einhvern tíma lambakjöt í ferðinni. Þessi frábæri árangur er framar bjartsýnustu spám og afrakstur ómældrar vinnu bænda og þeirra starfsfólks, leiðsögumanna, kokka, þjóna og margra fleiri. Takk, Íslendingar, fyrir að hjálpa okkur að segja söguna um íslenska lambið.

Höfundur er framkvæmdastjóri Icelandic Lamb.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×