Skoðun

Ótuktarlýður

Frosti Logason skrifar
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkti nýverið að auglýsa tillögu sem miðaði að því að fólki sem býr við fjölþættan vanda, geðsjúkdóma og vímuefnafíkn, yrði tryggt húsnæði í sérstökum þjónustuíbúðum í nýju hverfi bæjarins. Samkvæmt minnisblaði búsetu- og húsnæðissviðs Akureyrar var ekki talið forsvaranlegt að hafa umrædda einstaklinga í venjulegum fjölbýlishúsum eins og það var orðað.

Með þessu fylgdi svo rökstuðningur um mögulega hættu á ónæði og ógnunum sem nágrönnum gæti stafað af fólkinu og voru þá nefnd sérstaklega hugsanleg óþrif, hávaði og sérstök hætta á íkveikjum eða annars konar skemmdum. Skemmst er frá því að segja að ofangreint orðalag virðist hafa lagst illa í tilvonandi nágranna sem risu upp á afturlappirnar og mótmæltu áformunum harðlega. Íbúðir fyrir vímuefnaneytendur og ótuktarlýð, nei takk, sagði einn íbúinn í umræðum um málið. Bærinn hefur nú fallið frá þessari hugmynd.

Eftir stendur, að hópur sem stendur höllum fæti í samfélaginu vegna andlegs ástands síns á ekki í nein hús að venda. Það er auðvitað þyngra en tárum taki en fyrst og fremst lýsir þetta hinum miklu hörmungum alkóhólismans og allra þeirra sem í kringum hann búa. Það óskar sér nefnilega enginn að verða að ótuktarlýð. Vímuefnavandinn er samfélagslegt vandamál sem nauðsynlegt er að mæta með samfélagslegum úrræðum. Áherslur á refsingar en ekki betrun í þeim málaflokki eru ekki til að bæta vandann og lokun göngudeildar SÁÁ fyrir norðan hlýtur að flokkast sem hrapallegt óheillaskref í þessu samhengi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×