Skoðun

Sumar?

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Árstíðirnar á Íslandi eru aðeins tvær; vetur og haust. Hvort er mörlandinn þá einfaldlega tröllheimskur eða drifinn áfram af óbilandi bjartsýni og fullkominni afneitun á reynslu kynslóðanna þegar hann flykkist í taumlausri gleði út á göturnar undir lúðrablæstri og fagnar komu sumars í lok apríl?

Við höfum þó ærið tilefni til þess að fagna á fyrsta degi hörpu, sem er samkvæmt gamla norræna tímatalinu fyrsti sumarmánuðurinn af sex! Ókei, við erum pínu klikk en mögulega hefur þessi bjartsýnisveila haldið okkur á lífi í gegnum myrkar og botnfrosnar aldirnar á Íslandi.

Geðslag þjóðarsálarinnar er beintengt náttúrunni og auðvitað verður maður dapur, geðvondur og þungur á sér og í lund í drullukulda og kolniðamyrkri mánuðum saman.

En meira að segja mitt krónískt fúla geð léttist þegar ég get lagt blýþunga hermannaklossana mína, með grófmynstruðu og negldu gúmmísólunum, á hilluna og troðið mér í fisléttar Converse-strigatúttur.

Mér finnst eins og ég gangi í lausu lofti. Hjartað ólmast, eins og kanarífugl á amfetamíni, og reynir að sprengja utan af sér rimla brjóstholsins. Flögra bara eitthvert út í buskann, elska heitt og njóta þess að lifa. Frjáls.

Við erum bara einfaldlega ekkert hallærisleg þegar við tökum sumri fagnandi í apríl þegar andi okkar losnar úr klakaböndunum. Við erum að fagna lífinu sjálfu í allri sinni dýrð.

Þjóð sem hefur þraukað frá örófi alda í landi sem hefur lagt sig fram um að drepa hana, bæði líkamlega og andlega, hefur fulla ástæðu til þess að fagna eins og fífl þegar daginn tekur að lengja og fuglarnir syngja bjartar næturnar langar.

Gleðilegt sumar! Í apríl.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×