Hugbúnaðarfyrirtækið Kóði, sem rekur meðal annars Kelduna, hagnaðist um 88 milljónir króna árið 2017 og jókst hagnaðurinn um 30 prósent á milli ára. Tekjurnar námu 368 milljónum króna og jukust um 18 prósent á milli ára. Arðsemi eigin fjár nam 81 prósenti en eigið fé var 127 milljónir við árslok.
Stjórn félagsins leggur til að arðgreiðsla nemi 80 milljónum í ár en hún var 50 milljónir síðastliðin tvö ár.
Kóði á eins og fyrr segir Kelduna, upplýsingaveitu fyrir íslenskt viðskiptalíf, og Vaktarann sem sinnir net- og fjölmiðlavöktun. Fyrirtækið rekur jafnframt verðbréfaviðskiptakerfið KODIAK. Auk þess gekk það í hluthafahóp Sea Data Center á þessu ári.
Stærstu hluthafar Kóða eru Thor Thors, framkvæmdastjóri fyrirtækisins með 22,7 prósenta hlut, Dagur Gunnarsson forritari með 19 prósent, og Tómas Tómasson forritari með 19 prósent.
