Þetta kemur fram í frétt á vef verkalýðsfélagsins en þar segir að Kristján Loftsson hafi meinað starfsmönnum sínum að vera í Verkalýðsfélagi Akraness, öll iðgjöld verði greidd til Stéttarfélags Vesturlands.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélagsins Akraness hefur sagt að aðgerðir Hvals séu hefndaraðgerð í kjölfar dómsmáls sem verkalýðsfélagið vann gegn Hval hf. vegna vanefnda á kjörum starfsmanns.
Sjá einnig: Verkalýðsleiðtogi sakar Hval hf. um ólöglegar aðgerðir

Ljóst sé að þegar tvö eða fleiri félög séu með kjarasamning um sömu störf á sama svæði sé starfsfólkið frjálst að velja til hvaða félags iðgjöldum skal skilað.
„Ef atvinnurekendur ætla sér að hlutast til um það og beina starfsfólki í eitt félag frekar en annað er verið að vega að réttindum launafólks og frjálsrar verkalýðshreyfingar með ósvífnum hætti,“ segir í fréttinni.
„Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness lætur ekki vaða yfir sína félagsmenn á skítugum skónum og verður öllum slíkum aðgerðum mætt af fullri hörku!“