Bílaumboðið BL hagnaðist um 1.378 milljónir króna í fyrra, samkvæmt nýjum ársreikningi félagsins. Dróst hagnaðurinn saman um ríflega sex prósent frá fyrra ári þegar hann nam 1.468 milljónum króna.
Rekstrartekjur bílaumboðsins námu 26.459 milljónum króna á síðasta ári og jukust um 13 prósent frá árinu 2016 þegar þær voru um 23.359 milljónir. Rekstrargjöldin voru 24.622 milljónir í fyrra borið saman við 21.625 milljónir árið 2016, að því er fram kemur í ársreikningnum.
Eigið fé BL var 4.284 milljónir í lok síðasta árs og eiginfjárhlutfallið um 49 prósent. Alls störfuðu 234 manns að meðaltali hjá bílaumboðinu í fyrra borið saman við 209 árið 2016.

