Skoðun

Nýtt skipulag í Reykjavík, einfaldara kerfi

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skrifar
„Einfalda, skýra, skarpa borg“ endurtókum við í Viðreisn á hverjum kosningafundinum á fætur öðrum síðastliðið vor. Aðspurð um hvað þetta þýddi útskýrðum við að ferlin innan borgarinnar væru of flókin sem skapaði óþarfa óþægindi fyrir íbúa borgarinnar og aðila innan borgarkerfisins.

Til að bæta þjónustu við borgarbúa og tryggja að vel sé farið með almannafé ákváðum við að farið yrði í endurskoðun á miðlægri stjórnsýslu. Í ljós kom að ýmislegt mætti betur fara. Því var nýtt skipulag á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar kynnt í gær. Tillögur okkar byggja á skýrslu utanaðkomandi sérfræðinga á sviði stjórnskipulags og góðra stjórnarhátta. Í vinnu sinni rýndu skýrsluhöfundar alla starfsemi borgarinnar og tóku viðtöl við fjölda aðila, þar á meðal stjórnendur, eftirlitsaðila, oddvita allra flokka í borgarstjórn og marga fleiri. Með aðkomu fjölbreytts hóps fékkst skýr tónn fyrir þá ábyrgu og góðu stjórnarhætti sem nýtt skipulag tryggir.

Breytingarnar miða að því að skýra umboð og ábyrgð, einfalda boðleiðir og skerpa á hlutverki lykileininga í stjórnsýslu borgarinnar. Í nýju skipulagi eru innkaupamál tekin föstum tökum, hlutverk innkauparáðs útvíkkað og tryggt að öllum framkvæmdum sé fylgt vel eftir hvað varðar kostnaðaráætlanir, innkaup, útboð og fleira. Verkefnum á sviði eigna- og atvinnuþróunar verður skipt upp og þau færð á viðeigandi staði innan borgarinnar til að tryggja einfaldara kerfi og skýr hlutverkaskipti. Einnig verður þjónustu, nýsköpun, fjármálum, áhættustýringu og mannauði gert hærra undir höfði.

Þegar Viðreisn var kosin í borgarstjórn lofuðum við að leggja okkar af mörkum til að bæta kerfið. Nú hefur vandinn verið greindur og aðgerðalistinn er tilbúinn. Næst er að bretta upp ermarnar og byrja að lagfæra í þágu bættrar þjónustu við borgarbúa og skilvirkari stjórnsýslu. Það er eitthvað sem allir hafa ávinning af.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í borgarstjórn og formaður borgarráðs.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×