Þetta sagði Pence á fundi Geimráðs Bandaríkjanna. Varaforsetinn sagði koma til greina að skipta út eldflaugum og geimförum NASA fyrir eldflaugar og geimför einkafyrirtækja.
Hann sagði að fyrra markmiðið hefði verið að lenda mönnunum á tunglinu í fyrsta lagið árið 2028. Pence viðurkenndi að til að ná nýja markmiðinu þyrfti mikla hæfileika og sömuleiðis peninga.
„Það er kominn tími til að spýta í lófana,“ hefur AP fréttaveitan eftir Pence. „Þetta getur gerst, en mun ekki gerast nema við gefum í.“
Jim Bridenstine, yfirmaður NASA, staðhæfði að starfsmenn stofnunarinnar myndu gera allt sem í valdi þeirra stæði til að ná markmiði þessu. Sérfræðingur sem blaðamenn AP ræddu við dró það þó verulega í efa. Það þyrfti að þróa, byggja og prófa nýtt lendingarfar, sem er tímafrekt ferli. Þar að auki þyrfti nánast öll fjárveiting NASA að fara í þetta verkefni

Sjá einnig: Ný eldflaug NASA langt á eftir áætlun og peningar fuðra upp
Bridenstein sagði að könnun NASA hefði leitt í ljós að eldflaugar einkafyrirtækja eins og SpaceX og United Launch Alliance myndu ekki duga fyrir djúp-geimverkefni. Það er að segja að þær dugi ekki til þess að skjóta geimförum NASA til tunglsins og Mars.
Ríkisstjórn Donald Trump hefur þó lagt verulega niðurskurði til varðandi þróun SLS-eldflaugarinnar.
NASA birti meðfylgjandi myndband um ætlanir sínar fyrir tveimur vikum.