Skoðun

Týnda stúlkan

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Fyrir fjörutíu árum týndist þriggja ára stúlka í Vaglaskógi. Hún sá lítinn fugl sem hún elti niður brekku og komst ekki upp aftur. Hún horfði á eftir foreldrum sínum hverfa úr sjónmáli. Síðar staðnæmdist blár Volvó efst í brekkunni, maður skrúfaði niður rúðuna og spurði hvort hún væri týnd.

Þessi sama stúlka var fyrir skömmu á göngutúr á ókunnum stað þegar hún fann þyngsli magnast í hjartastað. Í hvert skipti sem eiginmaður hennar hvarf handan við horn fannst henni eins og hann væri að yfirgefa hana.

Aðskilnaður er ein versta tilfinning sem maðurinn upplifir. Samkvæmt Holmes-Rahe skalanum eru átta af ellefu mest streituvaldandi aðstæðum tengd aðskilnaði. Naomi Eisenberger hefur rannsakað heila þeirra sem upplifa aðskilnað. Þegar fólk er skilið útundan eykst virkni á svæðum í heilanum þar sem við upplifum líkamlegan sársauka. Eftir því sem virknin er meiri, því meiri er þjáningin. En það er hægt að minnka þjáninguna með því að senda taugaboð frá framheilanum þar sem rökhugsunin hefur aðsetur.

Eftir síðasta atvik (sem er eitt af mörgum) lagðist ég undir feld til að reyna að skilja þessi ofurýktu viðbrögð – því ég var með vinkonu mína mér við hlið og henni leið ekkert illa yfir því að maðurinn hennar arkaði á undan.

Allt í einu lá þetta ljóst fyrir mér. Litla stúlkan í skóginum var enn hrædd um að verða skilin eftir.

Ég held að við höfum öll sögu á bak við eigin tilfinningar og getum notað innsæi til að skilja þær – og hjálpað öðrum að skilja okkur. Nú veit ég að þegar ég finn mig aftur í sömu sporum þá getur hin fullorðna ég hughreyst þessa stuttu um að hún verði ekki skilin eftir, að hún sé ekki lengur týnd.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×