Auðkýfingurinn Jeffrey Epstein, sem m.a. er ákærður fyrir mansal og misnotkun á tugum stúlkna, fannst „hálfmeðvitundarlaus“ í fangaklefa sínum í New York í gær.
Epstein er sagður hafa fundist liggjandi á gólfi klefans með áverka á hálsi. Hann hefur verið í haldi lögreglu í New York síðan í byrjun mánaðarins en dómari hafnaði í síðustu viku beiðni um að Epstein yrði látinn laus gegn tryggingu.
Í frétt breska ríkisútvarpsins BBC segir að málið sé nú rannsakað en ekki er ljóst hvernig Epstein hlaut áverkana. Fréttastofa NBC hefur eftir nafnlausum heimildarmanni að ekki sé útilokað að Epstein hafi orðið fyrir árás eða reynt að fremja sjálfsvíg. Engar upplýsingar hafa fengist um líðan Epsteins en hann var fluttur á sjúkrahús á Manattan í gær.
Epstein hefur verið sakaður um að hafa misnotað tugi stúlkna á heimilum sínum í New York og á Flórída á árunum 2002 til 2005. Í ákæru á hendur honum kemur fram að hann eigi að hafa komið á fót og stýrt „neti sem gerði honum kleift að notfæra sér og misnota tugi stúlkna undir lögaldri kynferðislega“.
Epstein er einnig þekktur fyrir vinskap sinn við valdamikla menn á borð við Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og Donald Trump, núverandi Bandaríkjaforseta. Fyrr í mánuðinum var greint frá myndbandi frá árinu 1992 þar sem Epstein og Trump virða fyrir sér ungar konur í samkvæmi.

