Skoðun

Opinber hádegisverður

Hildur Björnsdóttir skrifar
Ítrekað og endurtekið berast fregnir af rekstrarvanda í miðborg. Rótgrónir og vel sóttir matsölustaðir leggja upp laupana. Róðurinn er þungur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Rekstrarumhverfi miðborgar er þungt – og stjórnsýsla borgarinnar torveld.

Vissulega er umhverfi verslunar síbreytilegt. Með aukinni netverslun á hefðbundin verslun undir högg að sækja. Það er alþjóðleg þróun og sannarlega ekki séríslenskt fyrirbæri. Þegar auðum verslunarrýmum fjölgar í borgum heims leggja borgaryfirvöld Reykjavíkur áherslu á fjölgun nýrra rýma. Kvaðir eru lagðar á húsbyggjendur um verslunarhúsnæði á jarðhæðum nýbygginga. Fleiri þúsundir nýrra verslunarfermetra finnast nú í miðborg – í fullkomnu ósamræmi við hina alþjóðlegu þróun. Framboð er langt umfram eftirspurn. Rekstraraðilar færa sig milli rýma og eftir stendur sundurslitið verslunarumhverfi.

Gatnaframkvæmdir standa yfir í miðborg. Flestir skilja nauðsyn framkvæmdanna – en þegar aðkomu verslana og veitingastaða er raskað er nauðsyn að eiga í samtali við rekstraraðila. Þess hefur ekki verið gætt og margir orðið fyrir verulegu tjóni. Málið sýnir skilningsleysi og hroka borgaryfirvalda gagnvart rekstraraðilum miðborgar. Samráð í tilkynningaformi án fyrirvara og samtals er engum til framdráttar.

Borgaryfirvöld mættu vera atvinnulífi vinveittari. Síhækkandi fasteignaskattar, svifasein stjórnsýsla og samráðsleysi hafa reynst litlum og meðalstórum fyrirtækjum óþægur ljár í þúfu. Það er tímabært að bregðast við.

Í miðborg Reykjavíkur er fjöldi opinberra stofnana. Mörg hundruð opinberir starfsmenn snæða opinberan hádegisverð í opinberum mötuneytum dag hvern. Væri kannski ráð að draga saman seglin, loka hinum opinberu mötuneytum og styðja fremur við einkaframtak í nærumhverfi? Það mætti útfæra án tjóns fyrir starfsfólk – en með miklum ágóða fyrir þá dugmiklu aðila sem nú stunda rekstur í miðborg. Hér gæti Ráðhús Reykjavíkur gengið á undan með góðu fordæmi. Ekki veitir af í óvinveittu rekstrarumhverfi sem kallar á viðbrögð.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×