Skoðun

Við erum regnboginn

Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar
Hinsegin fólk á Íslandi er fjölbreyttur hópur fólks. Í Gleðigöngunni í dag verða einstaklingar á öllum aldri, af öllum kynhneigðum og öllum kynjum. Öll eigum við það þó sameiginlegt að í dag göngum við í nafni gleðinnar, sýnileikans og baráttunnar fyrir réttindum okkar í fortíð og nútíð. 

Sumt fólk lítur svo á að best færi á því að við værum svolítið hljóðlátari, svolítið ósýnilegri. En staðreyndin er sú að árið 2019 tökum við okkur loksins það pláss í samfélaginu sem okkur var allt of lengi neitað um. Við ætlum aldrei aftur inn í skápinn.

Gleðigangan er frelsisganga. Saga hinsegin fólks er mörkuð af erfiðri baráttu og áföllum, en í dag erum við glöð og stolt. Við erum stolt fyrir þau okkar sem aldrei gátu verið það. Við erum stolt svo þau sem koma á eftir okkur þurfi aldrei að skammast sín. Ekkert barn á nokkurn tímann aftur að þurfa að efast um tilverurétt sinn og rétt til lífshamingju. Við erum stolt í dag, þótt samfélagið segi okkur stundum að við eigum ekki að vera það. 

Á Hinsegin dögum birtist regnboginn okkar allra stór og bjartur. Sólin þarf vissulega bara að skína í gegn um einn dropa til þess að ljós brotni og endurkastist. En það þarf dropafjöld til þess að mynda regnbogann. Munum, á Hinsegin dögum og alla aðra daga ársins, að við erum sterkust þegar við stöndum saman. Við erum ekki frjáls fyrr en við erum öll frjáls.

Höfundur er formaður Samtakanna '78. 




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×