En höfundarnir gera meira en þetta. Í bókinni er að finna skrár yfir allt efni, sem þeir telja að hafi birst á prenti, hvort sem er í bókum, tímaritum eða jafnvel dagblöðum um þetta. Einnig er nefnd alls konar umfjöllun sem birst hefur á internetinu. Bókin er á titilblaði sögð vera ritrýnd.
Á æviferli mínum hef ég gengt dósentstöðu við lagadeild Háskóla Íslands og síðar stöðu prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík, verið athafnasamur málflytjandi um áratuga skeið og átt sæti í Hæstarétti í átta ár 2004 til 2012. Ég hef líklega skrifað meira en flestir aðrir lögfræðingar um hrunið og lögfræðileg álitaefni sem komið hafa upp í samfélaginu í kjölfar þess. Meðal annars er efni sem að þessu lýtur að finna í fjórum bókum mínum, Veikburða Hæstiréttur (2013), Í krafti sannfæringar (2014), Með lognið í fangið (2017) og When Justice failed (2018). Þá hef ég skrifað um þetta fjölmargar greinar í lögfræðitímarit, önnur tímarit og dagblöð. Það efni hefur oftast einnig verið birt á internetinu. Þessi athafnasemi hefur ekki farið framhjá mörgum, nema þá kannski helst háskólakennurum í lögfræði, því á skrif mín er ekki minnst í bók lagakennaranna þriggja.
Þegar ég spurði fræðimennina sem skrifuðu Hrunrétt, hvers vegna verka minna væri ekki getið í bók þeirra, fékk ég það svar að þau hefðu ekki komið til umræðu við samningu hennar!Ég hef sjálfur haldið því fram að íslenska lögfræðingasamfélagið reyndi að þagga niður gagnrýni mína á óforsvaranleg vinnubrögð dómstóla eftir hrunið. Hér sýnist mér vera á ferðinni gott dæmi um þessa þöggun. Hún er höfundunum varla til mikils sóma, en gæti kannski orðið þeim til framdráttar. Hver veit?
Höfundur er lögmaður.