Skoðun

Ríkisútvarpið haldi stöðu sinni

Kári Jónasson skrifar
Það hefur oft gustað hressilega um Ríkisútvarpið síðan það hóf starfsemi sína árið 1930. Ýmis upphlaup hafa orðið í gegnum árin og menn hafa haft ýmsar skoðanir uppi varðandi starfsemi þess. Umræðan undanfarið hefur einkum beinst að fjármögnun stofnunarinnar og þá einkum hlutdeild hennar í auglýsingamarkaðinum hér á landi . Auglýsingar hafa verið fastur liður í dagskrá Ríkisútvarpsins frá stofnun og eru þess vegna hluti af daglegu lífi landsmanna. Mörgum íbúum nágrannalanda okkar kemur það stundum spánskt fyrir sjónir að hér séu auglýsingar í ríkisfjölmiðlinum, en svona er það nú samt, líkt og í flestum eða öllum öðrum löndum á meginlandi Evrópu. Þar eru stöðvarnar líka fjármagnaðar í flestum tilfellum með blöndu af afnotagjöldum og auglýsingum líkt og hér.

Tryggur hópur að baki RÚV

Það verður ekki annað sagt en að landsmenn standi þétt að baki Ríkis­útvarpinu, ef marka má fjölmargar kannanir á undanförnum árum. Þrátt fyrir tilkomu heimsmiðla sem hafa haft mikil áhrif á fjölmiðlun – ekki aðeins hér á landi heldur um allan heim – á Ríkis­útvarpið sinn trygga hóp hlustenda og áhorfenda. Stofnunin hefur líka lagt sig fram um að fylgja þróun í miðlun efnis, og sinna öllum aldurshópum, ekki síst ungu kynslóðinni. Má þar bæði nefna KrakkaRÚV og Rúv Núll, sem segja má að hafi valdið byltingu í notkun þessara hópa á fjölmiðlum og haft veruleg áhrif á menningarlegt uppeldi þeirra.

Meiri og meiri samkeppni

Samkeppni við erlendar efnisveitur verður sífellt harðari, en til að keppa við þær hefur RÚV stóraukið áherslu á innlent efni. Á undanförnum fimm árum hefur það aukist um 23% og á sama tíma hefur verið dregið úr framboði af bandarísku afþreyingarefni um 45%. Þetta eru tölur sem tala sínu máli og landinn hefur vel kunnað að meta. Sumt af því efni sem stofnunin hefur átt þátt í að framleiða hefur svo ratað í erlendar stöðvar og aukið hróður Íslands á sviði kvikmyndagerðar.

Við í Ríkisútvarpinu erum ákaflega stolt af útvarpsrásunum okkar tveimur og Sjónvarpinu. Hin gamla og virðulega Rás 1 hefur haldið sínu striki og blómstrað, þrátt fyrir mikla samkeppni á ljósvakarásunum.

Löggjafinn ákveður fjármögnun

En allt kostar þetta peninga, og til að standa undir hinni metnaðarfullu dagskrá eru auglýsingar og útvarpsgjaldið svokallað. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvernig hlutfallið varðandi fjármögnunina á að vera, en það er löggjafans að ákveða það. Við vonum bara og treystum því að verði hlutfall auglýsinga minnkað, fáum við það bætt með útvarpsgjaldinu. Ef til vill verða hugsanlegar breytingar á þessu hlutfalli til þess að styrkja einkarekna fjölmiðla og það er ekki nema gott um það að segja, því sannleikurinn er sá að löggjafinn hefði átt fyrir löngu að vera búinn að búa þannig um hnútana að hér á landi geti þróast lýðræðisleg og menningarleg umræða um hvaðeina sem mönnum liggur á hjarta. Framtak mennta- og menningarmálaráðherra á þessu sviði lofar góðu.

Stöndum vörð um tunguna

Ríkisútvarpið vill hér eftir sem hingað til leggja sitt af mörkum til íslenskrar menningar og lýðræðislegrar umræðu. Það hefur kannski aldrei verið nauðsynlegra en nú á tímum, þegar við verðum að slá skjaldborg um tungumálið okkar íslenskuna, sem á í sífellt meiri vök að verjast vegna erlendra áhrifa.

Höfundur er formaður stjórnar Ríkisútvarpsins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×