Skoðun

Að hafa kjark og dug

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Asbest var lengi álitið afbragðs einangrunar- og byggingarefni. Um 1935 var orðið ljóst að þeim sem vinna við asbest er hættara við lungnasjúkdómum sem koma fram á 10-15 árum. Þrátt fyrir það liðu sjötíu ár þar til allsherjarbann við notkun asbests gekk í gildi árið 2005.

Lungun eru í lykilhlutverki. Á hverjum sólarhring andar þú meira en 4.000 lítrum af andrúmslofti. Ummál lungna er á við tennisvöll sem sýnir hversu gríðarlega mikilvægt er fyrir líkamann að fá nægt súrefni. Ef lungnablöðrurnar eyðileggjast þá kafnar viðkomandi.

Nú er kominn fram nýr lungnasjúkdómur með þekkta orsök. Rafsígarettur hafa valdið skaða á lungnablöðrum ófárra unglinga. Það vekur óhug þar sem um 15% barna í tíunda bekk reykja rafsígarettur samkvæmt nýrri skýrslu. Þetta hlutfall gæti verið hærra því einhverjir þora ekki að segja rétt frá.

Unglingar eru á viðkvæmu þroskaskeiði. Á sama tíma og þeir eru að undirbúa sjálfstæði sitt er þeim hættara við að taka ákvarðanir út frá hvatvísi því framheili þeirra tekur síðast út þroska. Taugafrumur heilans eru ekki fullvíraðar sem gerir þeim auk þess hættara við að ánetjast fíkniefnum.

Nú heyrum við að yfirvöld vilji skoða reglur um sölu á rafsígarettum. Erum við að fara í annað asbestferli þar sem málið mun taka áratugi áður en almennilega er tekið á þessu? Í San Francisco er búið að banna sölu á rafsígarettum. Það má fara milliveg og selja einungis rafsígarettur í apótekum sem tól til að hætta sígarettureykingum, enda voru þær upphaflega ætlaðar til þess. Sveitarfélög geta tekið á þessum málum ef Alþingi hefur hvorki kjark né dug til að afstýra þessu lýðheilsuslysi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×