Varhugaverð vegferð Þórir Guðmundsson skrifar 25. október 2019 07:30 Vegurinn til heljar er oftast varðaður góðum ásetningi og vafalaust hefur Íslandsbanki hin ágætustu markmið með því að „kveðja auglýsingar hjá fjölmiðlum sem bjóða upp á afgerandi kynjahalla,“ svo vitnað sé í markaðs- og samskiptastjóra bankans. En Íslandsbanki er hér á varhugaverðri vegferð sem ógnar fjölmiðlum og skaðar umræðu og þar með lýðræðið í landinu. Ekki af því að markmiðið sé ekki gott heldur vegna þess að hótun um að refsa fjölmiðlum fyrir að hegða sér ekki í samræmi við stefnu fyrirtækis er hættuleg, ein og sér, og stórhættuleg sem fordæmi. Fyrirtæki sýna samfélagslega ábyrgð í verki með ýmsum hætti. Sum styrkja góðgerðamál, önnur minnka eigin kolefnisfótspor og mörg reyna að sporna gegn einnota umbúðum eða versla ekki við fyrirtæki sem framleiða stríðstól, svo dæmi séu tekin. Þegar stór auglýsandi biður fjölmiðla um að útvega sér tölur um kynjahlutfall á fréttastofu sinni, og segist síðan ætla að hætta að auglýsa í miðlum þar sem kynjahlutfallið er „afgerandi“, þá er ástæða til að staldra við. Þá fara rauð ljós að blikka. Þrýstingur á fjölmiðla En er ekki bara besta mál að fyrirtæki framfylgi stefnu sinni gagnvart fjölmiðlum eins og öðrum? Þegar grannt er skoðað er ýmislegt við það að athuga. Fjölmiðlar eru ekki bara hvaða fyrirtæki sem er, eins og meðal annars má sjá af því að um þá gilda sérstök lög. Eitt markmið þeirra er að verja ritstjórnir fjölmiðla fyrir utanaðkomandi þrýstingi. Fjölmiðlar hafa langa reynslu af að verjast þrýstingi; pólitískum, viðskiptalegum og persónulegum. Það er ekkert nýtt. Þeir eru gjarnan óþekkir, uppáþrengjandi og aðgangsharðir. Ýmsir telja sig eiga harma að hefna gagnvart fjölmiðlum og hafa um tíðina reynt að hafa áhrif á þá. Þar hafa bæði sakamenn, stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar komið við sögu. En það er nýtt að stórfyrirtæki telji sér sæmandi að beita fjárhagslegum styrk sínum til að hafa bein áhrif á starfsmenn fjölmiðla og viðmælendur þeirra. Hefði Íslandsbanki valið sér það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að berjast gegn fátækt, hefði bankanum þá þótt eðlilegt að krefjast þess að fjölmiðlar töluðu við eitthvert ákveðið hlutfall fátækra í fréttatímum sínum? Það er göfugt markmið; af hverju ekki beita þrýstingi til að framfylgja því? Bara af því að markmiðið er gott er ekki sjálfsagt að framfylgja því með hvaða hætti sem er. Undirstaða lýðræðis Fjölmiðlar og sú opna umræða sem þeir standa fyrir eru undirstaða lýðræðis. Þessi undirstaða stendur ekkert sérstaklega föstum fótum á Íslandi, eins og ágæt skýrsla um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla frá 2018 sýnir fram á. Inn í þetta umhverfi kemur Íslandsbanki með hótanir um refsingar í formi auglýsingabanns á þá sem ekki vinna samkvæmt stefnu bankans að mati bankans. Viðskiptalegar refsiaðgerðir En hverja munu þessar viðskiptalegu refsiaðgerðir hitta fyrir? Meðal fjölmiðla eru smærri miðlar, svo sem landshlutablöð, þar sem er einungis einn starfsmaður, kannski prentsmiðjueigandinn á staðnum sem gefur út staðbundið fréttarit og reiðir sig á auglýsingar til að halda því gangandi. Þeirra á meðal eru líka miðlar sem höfða til ákveðinna hópa, svo sem sjómanna, áhugafólks um prjónauppskriftir, matgæðinga, húseigenda, karla eða kvenna. Ákvörðun Íslandsbanka virðist ganga út á að miðlar verði sjálfkrafa útilokaðir ef starfsmenn eða viðmælendahópur eru aðallega af öðru kyninu. Eða hvert er viðmiðið? 60/40, 70/30, 80/20? Á þetta við um kynjahlutfall meðal starfsmanna eða meðal viðmælenda eða hvoru tveggja og þá í hvaða mæli? Og hvers vegna beitir bankinn ekki sama þrýstingi gagnvart innistæðueigendum, fyrirtækjum í eigu bankans, fjárfestingum hans? Bankinn hefur ágæta stefnu um kynjajafnrétti en getur verið að hann ætli að framfylgja henni eingöngu á útgjaldahliðinni en ekki þar sem fjárhagslegur sársauki bankans yrði meiri? Nú skal tekið fram að sú fréttastofa sem ég stýri stefnir að því að hafa kynjajafnvægi í bæði starfsmanna- og viðmælendahópnum og hefur ekki vondan málstað í þeim efnum. Hjá okkur starfa 32 fréttamenn; 16 karlar og 16 konur (í fullu eða hlutastarfi). Við Bylgjufréttir starfa tveir fréttamenn í fullu starfi, einn karl og ein kona. Fréttaþulir okkar á Stöð 2 eru fjórir, tveir karlar og tvær konur. Viðmælendur í fréttatíma Stöðvar 2 í fyrra voru 58% karlar og 42% konur, þannig að þar þurfum við áfram að keppa að jafnara hlutfalli kynjanna, þó eftir því sem fréttirnar gefa tilefni til. Við höfum ekki mælt kynjahlutfall viðmælenda í fréttum á Bylgjunni og Vísi. En það sem Íslandsbanki verður að skilja er að með ákvörðun sinni er bankinn að reyna að hafa áhrif á ritstjórnir fjölmiðla með fjárhagslegum þrýstingi. Það er óeðlilegt og þá skiptir engu máli hversu gott málefnið er. Það er þrýstingurinn sem er óeðlilegur, ekki markmiðið með honum. Vonandi er vegferðin sem bankinn virðist vera á bara vanhugsuð. Og þá er rétt að hann hugsi málið betur.Höfundur er ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Auglýsinga- og markaðsmál Fjölmiðlar Íslenskir bankar Jafnréttismál Þórir Guðmundsson Mest lesið Þolinmæði Hafnfirðinga er á þrotum! Kristín Thoroddsen Skoðun Glæpamenn í glerhúsi Ólafur Stephensen Skoðun Það ber allt að sama brunni. – Mín kenning. Björn Ólafsson Skoðun „Við lofum að gera þetta ekki aftur“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Gæludýraákvæðin eru gallagripur Árni Stefán Árnason Skoðun „Friðartillögur“ Bandaríkjamanna eru svik við Úkraínu Arnór Sigurjónsson Skoðun Erum við í ofbeldissambandi við ESB? Magnús Árni Skjöld Magnússon Skoðun Alvöru tækifæri í gervigreind Halldór Kári Sigurðarson Skoðun Dagur mannréttinda (sumra) barna Vigdís Gunnarsdóttir Skoðun Hægagangur í samskiptum við bæjaryfirvöld Hilmar Freyr Gunnarsson Skoðun Skoðun Skoðun Mannréttindi eða plakat á vegg? Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar Skoðun „Friðartillögur“ Bandaríkjamanna eru svik við Úkraínu Arnór Sigurjónsson skrifar Skoðun Styrkur Íslands liggur í grænni orku Sverrir Falur Björnsson skrifar Skoðun Eftir hverju er verið að bíða? Hlöðver Skúli Hákonarson skrifar Skoðun Fjölmenningarborgin Reykjavík - með stóru Effi Sabine Leskopf skrifar Skoðun Á öllum tímum í sögunni hafa verið til Pönkarar Martha Árnadóttir skrifar Skoðun Hlutverk hverfa í borgarstefnu Óskar Dýrmundur Ólafsson skrifar Skoðun Gæludýraákvæðin eru gallagripur Árni Stefán Árnason skrifar Skoðun Glæpamenn í glerhúsi Ólafur Stephensen skrifar Skoðun Það kostar að menga, þú sparar á að menga minna Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar Skoðun Þolinmæði Hafnfirðinga er á þrotum! Kristín Thoroddsen skrifar Skoðun Hægagangur í samskiptum við bæjaryfirvöld Hilmar Freyr Gunnarsson skrifar Skoðun Dagur mannréttinda (sumra) barna Vigdís Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Sterk ferðaþjónusta skapar sterkara samfélag Ingibjörg Isaksen skrifar Skoðun Hvað finnst Grindvíkingum? Jóhanna Lilja Birgisdóttir,Guðrún Pétursdóttir,Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir skrifar Skoðun Alvöru tækifæri í gervigreind Halldór Kári Sigurðarson skrifar Skoðun Erum við í ofbeldissambandi við ESB? Magnús Árni Skjöld Magnússon skrifar Skoðun „Við lofum að gera þetta ekki aftur“ Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Það ber allt að sama brunni. – Mín kenning. Björn Ólafsson skrifar Skoðun Hver mun stjórna heiminum eftir hundrað ár? Sigurður Árni Þórðarson skrifar Skoðun Íbúðir með froðu til sölu Björn Sigurðsson skrifar Skoðun Að hafa eða að vera Guðrún Schmidt skrifar Skoðun Mikilvægar kjarabætur fyrir aldraða Inga Sæland skrifar Skoðun Kerfisbundin villa – Af hverju þurfa börn innflytjenda að læra íslensku sem annað mál? Ólafur Guðsteinn Kristjánsson skrifar Skoðun Tryggðu þér bíl fyrir áramótin! Vilhjálmur Árnason skrifar Skoðun Formúlu fyrir sigri? Nei takk. Guðmundur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Norræn samstaða skapar tækifæri fyrir græna framtíð Nótt Thorberg skrifar Skoðun Má umskera dreng í heimahúsi? Eva Hauksdóttir skrifar Skoðun Viðskiptafrelsi og hátækniiðnaður Eggert Sigurbergsson skrifar Skoðun Hver er virðingin fyrir skólaskyldunni? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir skrifar Sjá meira
Vegurinn til heljar er oftast varðaður góðum ásetningi og vafalaust hefur Íslandsbanki hin ágætustu markmið með því að „kveðja auglýsingar hjá fjölmiðlum sem bjóða upp á afgerandi kynjahalla,“ svo vitnað sé í markaðs- og samskiptastjóra bankans. En Íslandsbanki er hér á varhugaverðri vegferð sem ógnar fjölmiðlum og skaðar umræðu og þar með lýðræðið í landinu. Ekki af því að markmiðið sé ekki gott heldur vegna þess að hótun um að refsa fjölmiðlum fyrir að hegða sér ekki í samræmi við stefnu fyrirtækis er hættuleg, ein og sér, og stórhættuleg sem fordæmi. Fyrirtæki sýna samfélagslega ábyrgð í verki með ýmsum hætti. Sum styrkja góðgerðamál, önnur minnka eigin kolefnisfótspor og mörg reyna að sporna gegn einnota umbúðum eða versla ekki við fyrirtæki sem framleiða stríðstól, svo dæmi séu tekin. Þegar stór auglýsandi biður fjölmiðla um að útvega sér tölur um kynjahlutfall á fréttastofu sinni, og segist síðan ætla að hætta að auglýsa í miðlum þar sem kynjahlutfallið er „afgerandi“, þá er ástæða til að staldra við. Þá fara rauð ljós að blikka. Þrýstingur á fjölmiðla En er ekki bara besta mál að fyrirtæki framfylgi stefnu sinni gagnvart fjölmiðlum eins og öðrum? Þegar grannt er skoðað er ýmislegt við það að athuga. Fjölmiðlar eru ekki bara hvaða fyrirtæki sem er, eins og meðal annars má sjá af því að um þá gilda sérstök lög. Eitt markmið þeirra er að verja ritstjórnir fjölmiðla fyrir utanaðkomandi þrýstingi. Fjölmiðlar hafa langa reynslu af að verjast þrýstingi; pólitískum, viðskiptalegum og persónulegum. Það er ekkert nýtt. Þeir eru gjarnan óþekkir, uppáþrengjandi og aðgangsharðir. Ýmsir telja sig eiga harma að hefna gagnvart fjölmiðlum og hafa um tíðina reynt að hafa áhrif á þá. Þar hafa bæði sakamenn, stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar komið við sögu. En það er nýtt að stórfyrirtæki telji sér sæmandi að beita fjárhagslegum styrk sínum til að hafa bein áhrif á starfsmenn fjölmiðla og viðmælendur þeirra. Hefði Íslandsbanki valið sér það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að berjast gegn fátækt, hefði bankanum þá þótt eðlilegt að krefjast þess að fjölmiðlar töluðu við eitthvert ákveðið hlutfall fátækra í fréttatímum sínum? Það er göfugt markmið; af hverju ekki beita þrýstingi til að framfylgja því? Bara af því að markmiðið er gott er ekki sjálfsagt að framfylgja því með hvaða hætti sem er. Undirstaða lýðræðis Fjölmiðlar og sú opna umræða sem þeir standa fyrir eru undirstaða lýðræðis. Þessi undirstaða stendur ekkert sérstaklega föstum fótum á Íslandi, eins og ágæt skýrsla um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla frá 2018 sýnir fram á. Inn í þetta umhverfi kemur Íslandsbanki með hótanir um refsingar í formi auglýsingabanns á þá sem ekki vinna samkvæmt stefnu bankans að mati bankans. Viðskiptalegar refsiaðgerðir En hverja munu þessar viðskiptalegu refsiaðgerðir hitta fyrir? Meðal fjölmiðla eru smærri miðlar, svo sem landshlutablöð, þar sem er einungis einn starfsmaður, kannski prentsmiðjueigandinn á staðnum sem gefur út staðbundið fréttarit og reiðir sig á auglýsingar til að halda því gangandi. Þeirra á meðal eru líka miðlar sem höfða til ákveðinna hópa, svo sem sjómanna, áhugafólks um prjónauppskriftir, matgæðinga, húseigenda, karla eða kvenna. Ákvörðun Íslandsbanka virðist ganga út á að miðlar verði sjálfkrafa útilokaðir ef starfsmenn eða viðmælendahópur eru aðallega af öðru kyninu. Eða hvert er viðmiðið? 60/40, 70/30, 80/20? Á þetta við um kynjahlutfall meðal starfsmanna eða meðal viðmælenda eða hvoru tveggja og þá í hvaða mæli? Og hvers vegna beitir bankinn ekki sama þrýstingi gagnvart innistæðueigendum, fyrirtækjum í eigu bankans, fjárfestingum hans? Bankinn hefur ágæta stefnu um kynjajafnrétti en getur verið að hann ætli að framfylgja henni eingöngu á útgjaldahliðinni en ekki þar sem fjárhagslegur sársauki bankans yrði meiri? Nú skal tekið fram að sú fréttastofa sem ég stýri stefnir að því að hafa kynjajafnvægi í bæði starfsmanna- og viðmælendahópnum og hefur ekki vondan málstað í þeim efnum. Hjá okkur starfa 32 fréttamenn; 16 karlar og 16 konur (í fullu eða hlutastarfi). Við Bylgjufréttir starfa tveir fréttamenn í fullu starfi, einn karl og ein kona. Fréttaþulir okkar á Stöð 2 eru fjórir, tveir karlar og tvær konur. Viðmælendur í fréttatíma Stöðvar 2 í fyrra voru 58% karlar og 42% konur, þannig að þar þurfum við áfram að keppa að jafnara hlutfalli kynjanna, þó eftir því sem fréttirnar gefa tilefni til. Við höfum ekki mælt kynjahlutfall viðmælenda í fréttum á Bylgjunni og Vísi. En það sem Íslandsbanki verður að skilja er að með ákvörðun sinni er bankinn að reyna að hafa áhrif á ritstjórnir fjölmiðla með fjárhagslegum þrýstingi. Það er óeðlilegt og þá skiptir engu máli hversu gott málefnið er. Það er þrýstingurinn sem er óeðlilegur, ekki markmiðið með honum. Vonandi er vegferðin sem bankinn virðist vera á bara vanhugsuð. Og þá er rétt að hann hugsi málið betur.Höfundur er ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis.
Skoðun Hvað finnst Grindvíkingum? Jóhanna Lilja Birgisdóttir,Guðrún Pétursdóttir,Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir skrifar
Skoðun Kerfisbundin villa – Af hverju þurfa börn innflytjenda að læra íslensku sem annað mál? Ólafur Guðsteinn Kristjánsson skrifar