TikTok, sem notað er til að deila stuttum myndskeiðum, hefur notið gríðarlegra vinsælda frá því að það var kynnt til sögunnar árið 2017. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af því en TikTok nýtur ekki síst hylli meðal íslenskra grunnskólabarna. Ætlað er forritinu hafi verið halað niður rúmlega milljarð sinnum. TikTok er í eigu fyrirtækisins Bytedance sem er með höfuðstöðvar sínar í Peking.

Þrátt fyrir ólguna í bandarískum stjórnmálum þessa dagana gátu þingmenn beggja flokka sammælst um andstöðu sína við TikTok í vikunni. Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings, og Tom Cotton, öldungadeildarþingmaður repúblikanaflokksins, settu þannig báðir nafn sitt við bréf til þarlendra löggæsluyfirvalda á miðvikudag þar sem samfélagsmiðillinn er sagður ógna þjóðaröryggi Bandaríkjanna.
Þeir óttast að kínversk stjórnvöld geti notað miðilinn til þess að hafa áhrif á forsetakosningarnar á næsta ári, rétt eins og Rússar gerðu í tifelli síðustu forsetakosninga. Rúmlega 110 milljónir Bandaríkjamanna séu með forritið í farsímunum sínum og því sé TikTok „ógn sem ekki er hægt að líta hjá,“ eins og þeir orða það í bréfi sínu. Þeir hvetja þarlend löggæsluyfirvöld því til að rannsaka TikTok og greina þinginu frá niðurstöðum sínum.

Sjá einnig: Hjarta íslenskrar móður í molum vegna eineltis á TikTok
Þessar ásakanir og efasemdir urðu til þess að TikTok sendi frá sér formlega yfirlýsingu í gær, þar sem þvertekið er fyrir þetta allt saman. „Við skulum hafa eitt alveg á hreinu: TikTok fjarlægir ekki efni sem þykir viðkvæmt í Kína. TikTok er ekki með neina starfsemi í Kína og hefur ekki í hyggju að vera með starfsemi þar í framtíðinni.“ TikTok heldur úti kínverskri útgáfu af forritinu, sem kallast Douyin.
„Öll gagnaver okkar eru utan Kína og kínversk lög ná því ekki til gagnanna okkar,“ segir í yfirlýsingunni og bætt við að öll gögn TikTok séu geymd í Bandaríkjunum. Efasemdir fólks séu skiljanlegar og vilji TikTok því standa vörð um gagnsæi og áreiðanleika.
Meint afskipti kínverskra stjórnvalda af miðlinum er þó ekki eina gangrýnin sem hann hefur sætt. Þannig hafa íslenskir skólastjórnendur hvatt foreldra til að fylgjast með TikTok-notkun barna sinna. Dæmi sé um að forritið sé notað til að leggja önnur börn í einelti.