Félagið Novator ehf., sem er í eigu kaupsýslumannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur verið eini lánveitandi Frjálsrar fjölmiðlunar og helsti bakhjarl fjölmiðilsins frá árinu 2017. Þetta kemur fram í úrskurði Samkeppniseftirlitsins um samruna Torgs og Frjálsrar fjölmiðlunar sem birtist á vef eftirlitsins í gær.
Samkeppniseftirlitinu var þann 16. desember í fyrra tilkynnt um kaup Torgs, sem gefur út Fréttablaðið, á öllum eignum Frjálsrar fjölmiðlunar, útgáfufélags DV. Samruninn var samþykktur í mars og þá var þegar komið fram að Frjáls fjölmiðlun hefði átt í verulegum rekstrarerfiðleikum.
Fengu loks upplýsingar um bakhjarlinn
Samkeppniseftirlitið óskaði eftir því í desember að fá upplýsingar um stærstu lánveitendur Frjálsrar fjölmiðlunar. Skráður eigandi félagsins er félagið Dalsdalur í eigu Sigurður G. Guðjónssonar lögmanns. Hann hefur hingað til ekki viljað upplýsa um hundruð milljóna lánveitingar til félagsins.
Eftir athugasemdir af hálfu eftirlitsins bárust loks umbeðnar upplýsingar frá Frjálsri fjölmiðlun í janúar síðastliðnum. Þar kom fram að félagið Novator ehf. hafi verið eini lánveitandi Dalsdals og Frjálsrar fjölmiðlunar og helsti bakhjarl fjölmiðilsins frá eigendaskiptum árið 2017.
„Ein ríkisrekin fréttastofa“
Þrjú fyrirtæki tjáðu sig um samrunann og töldu hann ekki koma til með að hafa teljandi áhrif á samkeppni á þeim mörkuðum sem um væri að ræða, að því er fram kemur í úrskurði Samkeppniseftirlitsins.
Einn af þeim óskaði þó eftir því að Samkeppniseftirlitið setti það sem skilyrði fyrir samrunanum að upplýst yrði um raunverulega eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar. Leyndin yfir því hver raunverulegur eigandi þess sé valdi öðrum fjölmiðlafyrirtækjum miklum skaða og skekki markaðsstöðu óhjákvæmilega.
Eigendur Torg og Frjálsrar fjölmiðlunar gerðu jafnframt grein fyrir sjónarmiðum sínum er vörðuðu samrunann. Nauðsynlegt væri að tryggja rekstrargrundvöll innlendra fjölmiðla svo hægt verði að mæta sívaxandi samkeppni af hálfu erlendra aðila. Staða innlendra fjölmiðla væri almennt veik og ástandið í raun „algjörlega glórulaust.“
„Á sama tíma sé hlaðið undir rekstur RÚV, með mörg þúsund milljóna króna skattfjárforskoti þess á markaði, á sama tíma sem RÚV sé stjórnlaust á auglýsingamarkaði. […] Einn daginn gæti staðan verið sú, ef fram fer sem horfir að í landinu verði ein ríkisrekin fréttastofa.“
Torg er í 100% eigu HFB-77 ehf. Í því félagi á Varðberg ehf. í eigu Helga Magnússonar 82% hlutafjár en aðrir hluthafar eru Saffron í eigu Sigurðar Arngrímssonar, sem á 10% hlut, Jón Guðmann Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, sem á 5% hlut og Guðmundur Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri sölu markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torg, sem á 3% hlutafjár.