Það er mokveiði og þorskur út um allt, segir skipstjórinn á litlum línubát sem landaði yfir tuttugu tonnum í Grindavíkurhöfn í morgun eftir sólarhring á sjó. Púlsinn var tekinn á Suðurnesjamönnum við upphaf vetrarvertíðar í fréttum Stöðvar 2.
Þeir eru fjórir í áhöfn línubátsins Vésteins GK, sem Einhamar í Grindavík gerir út, sem komu að landi í morgun með sextíu kör, stútfull af fiski. Aflann höfðu þeir fengið á sandbotni við Vestmannaeyjar, en þar komu þeir við í fyrrinótt á leið sinni frá Austfjörðum.
Skipstjórinn, Kristján Ásgeirsson, segir þá gera út frá Stöðvarfirði megnið af árinu en þeir flytji sig vestur til Grindavíkur yfir vertíðina. Þeir hafi svo komið við á leiðinni í Vestmannaeyjum til að taka olíu, en línuna lögðu þeir út við Eyjar.
„Fengum alveg rótarafla. Kjaftfylltum bátinn. Þetta eru eitthvað rúm tuttugu tonn,“ segir Kristján.

Trukkurinn á bryggjunni var í sinni þriðju ferð að flytja aflann, og ekki allt komið enn, en afli þessa þrjátíu tonna báts var á leið í vinnslu Einhamars og síðan áfram í flug til útlanda.
„Það er að fyllast allt af þorski hérna.“
-Þannig að núna er vetrarvertíðin að hefjast?
„Já, maður hefur heyrt bara, - að það er rótarafli í Sandgerði og Faxaflóanum og alveg austur fyrir Eyjar. Þannig að það er þorskur út um allt.“
-Þannig að það er gaman að lifa núna?
„Já. Það er gaman. Og líka fyrir austan. Það er mokveiði fyrir austan líka. Það er bara nóg til af þorski í sjónum,“ segir Kristján Ásgeirsson, skipstjóri á Vésteini GK.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: