Vilja flytja eldislax á markað með tómum farþegaþotum

Ein hugmyndin er einfaldlega að fylla farangursrými flugvélanna með laxi og silungi, að því er norskir fjölmiðlar greina frá í gær. Þrátt fyrir hremmingar á hlutabréfamörkuðum vegna kórónufaraldurs hefur verð á eldislaxi haldist stöðugt og hátt, í kringum 68 norskar krónur kílóið, eða um 900 krónur íslenskar.
„Auðvitað fylgir þessu kostnaður en á sama tíma hrópar markaðurinn á fiskinn. Okkar tilfinning er að viðskiptavinir séu tilbúnir að sætta sig við verðhækkun, að minnsta kosti ef við deilum aukakostnaði við flug,“ segir Ola Braanaas, forstjóri Firda Seafood í samtali við Finansavisen.
Firda Seafood seldi sjávarafurðir fyrir um einn milljarð norskra króna á síðasta ári. Milli 10 og 20 prósent voru flutt út frá Noregi með flugi og núna óttast forstjórinn að brenna inni með ferskan lax, þegar verið er að aflýsa stórum hluta flugferða.
Haft er eftir Martin Langaas, framkvæmdastjóra fraktmála hjá í Avinor, hins norska Isavia, að eftirspurn eftir vöruflutningaflugi hafi rokið upp um allan heim undanfarna daga.
„Það hefur orðið mikil aukning. Vandamálið fyrir útflytjendur sjávarafurða er að verð sem þeir hafa verið vanir að greiða fyrir fraktflug gæti hækkað verulega. Það eru svo margir sem eru tilbúnir að borga meira fyrir flugfrakt en það sem norskir fiskútflytjendur hafa verið að greiða,“ segir Langaas.
Hann segist vera meðvitaður um að nokkur flugfélög íhugi að fljúga tómum farþegaflugvélum bara til að koma vörum á milli staða. Hins vegar gæti slíkur flutningur þurft að kosta þrefalt meira en venjulega.
Tengdar fréttir

Bjartsýnir á að flug með ferskan fisk verði tryggt
Mikill samdráttur í farþegaflugi vekur spurningar um hvernig fer með útflutning á ferskum íslenskum sjávarafurðum með flugi en stór hluti nýtir farangursrými farþegaflugvéla.

Sandgerði að eflast sem bær "flugfisks“
Þrjú ný fiskvinnslufyrirtæki hafa orðið til í Sandgerði á einu ári sem öll eiga það sammerkt að sérhæfa sig í fiski sem sendur er samdægurs með flugi til útlanda.

Fraktflugið upp um 40% með styrkingu krónunnar og Costco
Fraktflutningur Icelandair Cargo hefur farið stigvaxandi undanfarin sex ár. Aukningin í júlí nam rúmum fjörutíu prósentum miðað við sama mánuð í fyrra. Framkvæmdastjórinn segir ástæðuna margþætta.

Farþegaflugið býr til nýja fiskmarkaði
Beint samhengi er á milli fjölgunar heilsársflugleiða frá Keflavíkurflugvelli og nýrra markaða fyrir fisk. Góðar flugtengingar gjörbreyta landfræðilegri stöðu Íslands. Vanmetið hvað flugvöllurinn hefur skapað mikið fyrir sjávarútveg