Portúgal er því með sex stig eftir fjóra leiki en gæti enn þurft að vinna Frakkland í lokaumferðinni á sunnudag til að komast áfram í 8-liða úrslitin. Sviss er úr leik í þeirri baráttu, aðeins með tvö stig fyrir lokaleik sinn við Alsír.
Andy Schmid var sem fyrr allt í öllu í sóknarleik Sviss og skoraði 11 mörk og átti fimm stoðsendingar. Victor Iturriza var markahæstur Portúgals með sjö mörk.
Úrslitin þýða að til að Ísland komist áfram þarf liðið að vinna Frakkland á eftir og svo Noreg á sunnudag, og treysta á að Portúgal vinni Frakkland. Eða þá að Frakkland vinni Portúgal á sunnudag, en þá þyrfti Ísland að hafa unnið Frakkland og svo Noreg með fjögurra marka mun, og Noregur að hafa unnið Alsír.
Rússland vann 32-20 sigur á Norður-Makedóníu í milliriðli fjögur og er með fimm stig í efsta sæti, en Makedóníumenn eru án stiga. Svíar geta farið aftur á toppinn með sigri á Slóvenum í kvöld í afar mikilvægum leik en Svíar eru með fimm stig og Slóvenar fjögur.
Í forsetabikarnum vann Marokkó 32-25 sigur gegn Suður-Kóreu.