Skoðun

Sumar barnsins

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir og Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifa

Sumarið er gengið í garð og sippubönd, krítar og sápukúlur hafa verið dregin fram.

Það er sérstaklega kærkomið að finna vor í lofti nú þegar margir hafa á undanförnu ári upplifað mikinn kvíða og depurð vegna COVID faraldursins. Börn eru þar ekki undanskilin en strangar reglur um hreinlæti og samskipti við aðra, félagsleg einangrun, álag á fjölskyldum, sífellt tal um COVID og sóttvarnir, og áhyggjur af námi sínu og námsárangri hefur allt gífurleg áhrif á börn. Að auki eiga ekki öll börn öruggt skjól á heimilum sínum, en tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði talsvert á síðastliðnu ári sem og málum á borði barnaverndar.

Breskt fagfólk á sviði uppeldis- og fræðslu hafa kallað eftir því að sumarið 2021 verði helgað leik. Það sem börn þurfi mest á að halda núna sé að vera úti, leika sér við önnur börn og verja tíma með fjölskyldum sínum eða í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi en ekki að eyða sumrinu í að læra og vinna upp glötuð námstækifæri. Börn þurfa á leik að halda, hann er nauðsynlegur fyrir andlega heilsu þeirra og er undirstaða í námi barna. Í gegnum leik takast þau á við streitu í lífi sínu, efla félagslega færni og sjálfstæði, læra að tala eigin máli og auka líkamlegt, vitsmunalegt og tilfinningalegt þrek sitt.

Íslensk stjórnvöld eiga að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi þegar teknar eru ákvarðanir um sóttvarnaraðgerðir. Þær þurfa að taka mið af því að hægt verði að bjóða börnum og fjölskyldum upp á áhyggjulaust og skemmtilegt sumar, með stuðningi við barnafjölskyldur. Þá þurfa fjölskyldur og aðstandendur barna að hafa í huga mikilvægi þess að gefa börnum áhyggjulaust sumar með leik í forgrunni og atvinnurekendur að veita svigrúm til að hægt sé að mæta þeim þörfum.

Gleðilegt sumar!

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, foreldri í Hafnarfirði og starfsmaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.  Guðmundur Ari Sigurjónsson, foreldri á Seltjarnarnesi, bæjarfulltrúi og tómstunda- og félagsmálafræðingur

Höfundar eru frambjóðendur Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi í 3. og 4. sæti.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×