Skoðun

Fleiri velja vist­væn öku­tæki

Jón Hannes Karlsson skrifar

Flest heimili munar um 110.000 kr. á ári. Það er ýmislegt hægt að gera fyrir þá upphæð. Það er um það bil sú upphæð sem sparast í eldsneytiskostnaði við að færa sig úr dísel- eða bensínbifreið yfir í rafmagnsbifreið. Áætlaður eldsneytiskostnaður á nýrri dísel bifreið er um 150.000 kr. á ári miðað við 15 þúsund kílómetra akstur, á meðan orkukostnaður fyrir nýja rafmagnsbifreið er um 40.000 kr. á ári fyrir sömu notkun. Það er því fjárhagslega hagkvæmt að nýta umhverfisvænni bifreiðar.

Fólk er meðvitað um mikilvægi þess að velja umhverfisvæna kosti þegar þeir eru í boði. Hvað bifreiðar varðar eru það ekki eingöngu rafmagnsbílar sem minnka útblástur kolefna eða notkun á jarðefnaeldsneyti. Í þessum málum eins og öðrum hafa átt sér stað miklar framfarir. Rétt eins og bílaframleiðendur út um allan heim hafa gert bifreiðar öruggari og þægilegri hafa þeir stigið stór og mikilvæg skref í þeim tilgangi að gera þær sparneytnari og umhverfisvænni.

Það eru ýmsir þættir sem fólk hugar að við val á bifreið. Öryggi og þægindi eru veigamiklir þættir en umhverfisþættir og sparnaður eru það líka. Fyrir flest heimili skiptir máli að geta valið sér örugga, þægilega og umhverfisvæna bifreið á góðum kjörum.

Þróun

Fjöldi umhverfisvænna bifreiða hefur aukist jafnt og þétt á liðnum áratug. Um 52% af nýskráðum bifreiðum á árinu 2020 flokkuðust sem grænir bílar og er árið 2020 fyrsta árið þar sem fleiri hybrid og rafmagnsbílar voru seldir en hefðbundnir bílar drifnir áfram á jarðefnaeldsneyti . Ef aðeins er horft til rafmagnsbifreiða ríflega þrefaldaðist fjöldi þeirra árinu 2020 og fór úr um 7% í 22%.

Af nýskráðum bílum er Ísland með annað hæsta hlutfallið af hybrid og rafmagnsbílum, á eftir Noregi. Noregur og Ísland skera sig frá öðrum löndum í þessum efnum. Til að halda þessari vegferð áfram er mikilvægt að innviðauppbygging sé í takt. Ríkisvaldið leikur þar lykilhlutverk hvað varðar tolla og innflutningsgjöld auk dreifingar og aðgengis að hleðslustöðvum. En hvatning getur líka borist frá fjármálastofnunum. Bjóða má hagkvæmari lán á bílalánum og bílasamningum, rétt eins og gert er á mínum vinnustað.

Það er því til alls að vinna þegar valin er umhverfisvæn bifreið, bæði fyrir heimilisbókhaldið og umhverfið.

Höfundur er framkvæmdastjóri Ergo, fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×