Skoðun

Einhverfum börnum aftur synjað

Valgerður Sigurðardóttir skrifar

Það er ótrúlegt að ári eftir að ég skrifaði grein hér á visir.is, Einhverf og synjað um skólavist, stendur til að synja 30 börnum með einhverfu um skólavist í sérdeildum fyrir einhverfa. Það er dapurleg staða í stærsta sveitarfélagi landsins að það ráði ekki við að veita þjónustu til einhverfra. Það er dapurlegt að aðstandendur einhverfra barna í Reykjavík séu í stöðugum átökum við sveitarfélagið. Foreldrar verða að berjast fyrir því að börn þeirra fái skólavist sem hentar þeim best. Það er dapurlegt að sá meirihluti sem stjórnar í Reykjavík leggi ekki allan sinn metnað í það að sinna börnum betur, öllum börnum. Núna eru biðlistar á leikskóla í Vesturbænum gríðarlega langir, í húsnæði leik- og grunnskóla er að finnast heilsuspillandi mygla, einhverf börn fá ekki inn í sérdeildir fyrir einhverfa. Á meðan á að setja tíu milljarða í stafræna uppbyggingu og yfir fjóra milljarða í endurgerð á Grófarhúsinu sem ekkert er að. Ég verð að játa að ég átta mig ekki á þessari forgangsröðun hjá núverandi meirihluta.

Látum draumana rætast

Ný menntastefna Reykjavíkurborgar ber yfirskriftina látum draumana rætast, það eru því kaldar kveðjur sem einhverf börn og foreldrar þeirra fá. Draumar foreldra einhverfra barna eru að hagsmunum barna þeirra sé best gætt með því að þau fái skólavist í sérdeildum fyrir einhverfa. Þess vegna er sótt um fyrir þau þar. Nú hafa foreldrar þrjátíu einhverfra barna hins vegar fengið bréf frá Reykjavíkurborg þar sem þau eru upplýst um það að fyrirhugað sé að synja þeim um skólavist í sérdeildum fyrir einhverfa. Úrræði sem foreldrarnir velja af því þau telja það best fyrir börn sín. Börn þeirra eiga hins vegar að fara inn í venjulegar bekkjardeildir, þvert á það sem foreldrar þeirra óskuðu eftir.

Mismunun

Það er óskiljanlegt að neita börnum með sérþarfir um þá skólavist sem sótt er um fyrir þau. Neita þeim um skólavist í sérdeildum í þeim skólum sem foreldrar þeirra telja að henti þeim best. Ég vona að draumar þessara barna og foreldra þeirra fái að rætast og þau geti stundað nám í sérdeildum fyrir einhverfa. Ég vona að meirihlutinn í Reykjavík fari að sinna bönum betur og foreldrar barna með sérþarfir þurfi ekki að standa ár eftir ár í stappi við borgina til þess að fá þá þjónustu sem hentar best fyrir börn þeirra. Það er ekki boðlegt að sum börn fái inni í einhverfudeildum í grunnskólum Reykjavíkur en önnur ekki, það er mismunun.

Valgerður Sigurðardóttir,

borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×