Flensborgarskóli fagnaði því ákaft í um hálfa mínútu áður en dómarinn steig aftur í pontu og leiðrétti sig. Það var Versló sem vann – ekki Flensborg.
Afar mjótt var á munum í keppninni, raunar lygilega mjótt því aðeins munaði 22 stigum á liðunum af 4.704 heildarstigum og var Flensborgarskólinn með fleiri stig en Versló. Það réð þó úrslitum að þrír dómarar af fimm dæmdu Versló sigur, þó skólinn fengi færri stig í heildina þegar stig allra dómara voru lögð saman.
Mistök oddadómarans Ingvars Þóroddssonar verða því að teljast skiljanleg þó þau hafi verið óheppileg í meira lagi.
Afsakið, afsakið, afsakið
„Sigurvegari Morfís 2021 er… Flensborgarskólinn!“ tilkynnti Ingvar og brutust þá út gríðarleg fagnaðarlæti Flensborgar megin í salnum með gleðiópum og konfettísprengju. Fagnaðarlætin entust í um hálfa mínútu áður en heyrðist aftur í oddadómaranum í pontunni:
„Nei, afsakið, afsakið, afsakið. Ég verð að fá þögn í salinn. Ég verð að fá þögn í salinn,“ sagði Ingvar og tókst loks að róa áhorfendur.
„Ég biðst innilegrar afsökunar á þessu. Mér þykir þetta ótrúlega leitt, mér líður ömurlega. Það lið sem var með fleiri dómara með sér og vann þar af leiðandi keppnina er Verslunarskólinn,“ tilkynnti hann hálflúpulegur og steig svo af sviðinu.
Við tóku þá fagnaðarlæti Verslinga, sem voru enginn eftirbátur Flensborgarnema. Þar var borðum velt um koll og tók einn stuðningsmaður liðsins sig til og hvatti samnemendur sína til að fagna sigrinum almennilega það kvöldið: „Allir að fokking djamma!
Umræðuefni keppninnar var „Ísland er spillt land“ og mælti Flensborgarskólinn með fullyrðingunni en Verslunarskólinn á móti.