Aso sagði að innrás í Taívan myndi ógna öryggi Japans og þar með falla undir tilfelli þar sem heimavarnarlið Japans (SDF), eins og her landsins hefur verið kallaður frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, gæti komið Taívönum til aðstoðar. Stjórnarskrá landsins, sem samin var eftir seinni heimsstyrjöldina, meinar herafla landsins að eiga í átökum í flestum tilfellum.
Árið 2015 var lögum landsins þó breytt á þann veg að beita má SDF til aðstoðar vinveittra ríkja.
Fjölmiðlar í Japan hafa haft eftir Aso af fjáröflunarfundi í Kyodo, að Japanir þyrftu að taka tillit til þess að Kínverjar gætu næst gert innrás í Okinawa.

Með ummælum sínum varð Aso, sem er einni fjármálaráðherra og situr í þjóðaröryggisráði Japans, æðsti embættismaður Japans sem hefur sagt að Japanir myndu aðstoða Taívan í átökum við Kína, samkvæmt frétt Japan Times.
Hann var þó spurður frekar út í ummæli sín af blaðamönnum í morgun og sagði að allar deilur yfir Taívansundið ætti að leysa með viðræðum. Annar ráðherra ítrekaði að Aso hefði verið að ræða ímyndaða sviðsmynd.
Japan Times hefur svo eftir Nobuo Kishi, varnarmálaráðherra Japans, að ríkisstjórn landsins myndi taka vel ígrundaða ákvörðun ef innrás yrði gerð í Taívan og sú ákvörðun tæki mið af öryggi Japans.
Í stuttu máli sagt hafa Kínverjar lengi gert tilkall til Taívan sem hefur í raun verið sjálfstætt ríki frá árinu 1949. Þá flúðu meðlimir þjóðernissinna til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Taívan hefur þó aldrei formlega lýst yfir sjálfstæði.
Bandaríkin slitu formlegum tengslum við Taívan árið 1979, að kröfu Kínverja, en hafa þrátt fyrir það haldið umfangsmiklum óformlegum tengslum við ríkið og útvega Taívan meðal annars vopn.
Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin á undanförnum árum og hefur Tsai til að mynd ítrekað sagt að Taívan sé sjálfstætt ríki sem heiti í raun Lýðveldið Kína, sem er formlegt nafn ríkisins.
Bæði í Taívan og Bandaríkjunum hafa ráðamenn áhyggjur af því að Kínverjar ætli sér að tryggja yfirráð sín yfir Taívan með því að gera innrás í landið.
Sjá einnig: Taívan býr sig undir átök við Kína
Ráðamenn í Kína hafa sagt innrás í Taívan koma til greina og hafa beitt eyríkið sífellt auknum þrýstingi á undanförnum mánuðum og hefur þessi þrýstingur verið kallaður „óhefðbundinn hernaður“. Markmiðið er að grafa undan getu herafla Taívans og pólitískum vilja til sjálfstæðis.
Þessar aðgerðir Kínverja felast meðal annars í því að fljúga orrustuþotum og sprengjuflugvélum ítrekað inn í loftvarnasvæði Taívans og að sigla herskipum inn í lögsögu landsins.
Í Bandaríkjunum hafa ráðamenn tekið meira afgerandi afstöðu með Taívan og hafa háttsettir bandarískir embættismenn ferðast til landsins og rætt þar við embættismenn. Það hefur ekki fallið í kramið í Peking.
Sjá einnig: Segja Bandaríkjunum að hætta að leika sér að eldi
Reuters hefur eftir talsmanni utanríkisráðuneytis Kína að Kínverjar hafni ummælum Aso og annarra og að þau skemmi samskipti Kína og Japans. Þá sagði hann að enginn ætti að vanmeta vilja Kínverja g getu til að verja eigið fullveldi.