Landsvirkjun vekur athygli á þessu á vef fyrirtækisins, þar sem segir að Hálslón sé við það að fyllast, líkt og venjan er síðsumars.
Þegar það gerist er vatni veitt um yfirfall við vestari enda Kárahnjúkastíflu niður að gljúfurbarminum. Þaðan steypist það í 90–100 metra háum fossi, Hverfanda, niður í Hafrahvammagljúfur.
Sem fyrr segir rennur vatnið niður Jökulsá á Dal og meðal annars um Stuðlagil, sem notið hefur vinsælda sem áfangastaður ferðamanna undanfarin ár. Er Stuðlagil þekkt fyrir fallegt stuðlaberg og grænbláan lit á ánni. Stuðlabergið verður áfram á sínum stað eftir að lónið fer á yfirfall en áin verður gruggug og mórauð, en ekki grænblá.
Fossinn Hverfandi vekur alla jafna töluverða athygli á hverju ári, en .að er til marks um gríðarlegt afl fossins að hann getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss, að því er segir á vef Landsvirkjunar.