Skoðun

Að­gerða­á­ætlun gegn fá­tækt barna!

Steinunn Þóra Árnadóttir skrifar

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem Varða Rannsóknarstofa Vinnumarkaðarins gerði meðal félaga í ÖBÍ staðfestist enn og aftur sú staðreynd að fjárhagsstaða einstæðra foreldra í hópi öryrkja er oft mjög slæm. Einstæðir foreldrar með börn í hópi öryrkja hafa í meira mæli þurft að nota þá fjárhagsaðstoð sem spurt var um í könnuninni eða um átta af hverjum tíu. Flestir höfðu þurft að leita á náðir ættingja, vina eða hjálparsamtaka. Auk þess kemur í ljós að um átta af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum útgjöldum. Oft vilja börnin sjálf gleymast í umræðu um fátækt.

Við þurfum ávallt að horfa á aðgerðir stjórnvalda gegn fátækt út frá sjónarhorni barna. Þar sem þessu sjónarhorni hefur verið beitt erlendis hefur komið í ljós að aðstæður barna eiga það til að gleymast í umræðunni um fátækt. Þessi staðreynd er grafalvarleg þar sem ljóst er að afleiðingar barnafátæktar eru skelfilegar, styttri lífslíkur, verri andleg og líkamleg heilsa ásamt auknum líkum á að búa við fátækt á fullorðins aldri. Til að breyta þessu þarf fyrst og fremst að bæta lífskjör einstæðra foreldra, ekki síst í hópi öryrkja. Barnabætur hafa verið hækkaðar og fleiri njóta þeirra, en ljóst er að huga þarf sérstaklega að hækkun til þeirra verst stöddu t.d með hækkun hámarksbóta. Hækka þarf barnalífeyri og halda áfram að auka niðurgreiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu og menntun. Festa ætti í sessi sérstakan frístundastyrk og vinna að innleiðingu hans í samvinnu við sveitarfélögin. Efla þarf almenna íbúðakerfið, en ljóst er að staða á húsnæðismarkaði og húsnæðiskostnaður hafa mikil áhrif á fólk sem býr við fátækt.

Nú þurfa stjórnvöld að vinna fyrstu heildstæðu aðgerðaáætlunina gegn fátækt barna á Íslandi. Við þá vinnu er mikilvægt að nýta reynsluna frá öðrum löndum á borð við Noreg. Meðal brýnna aðgerða er að brúa umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með tímasettri áætlun, endurskoða barnabótakerfið með áherslu á tekjulægstu hópana, hækka grunnframfærslu öryrkja ásamt barnalífeyri og tryggja að stuðningskerfi vinni og virki saman og ávallt með hagsmuni barna að leiðarljósi. Við Vinstri græn höfum sýnt að okkur er treystandi til að taka að okkur umfangsmikil verkefni, og forgangsraða ávallt í þágu þeirra sem þurfa mest á því að halda. Nú er kominn tími til að stjórnvöld vinni fyrstu heildstæðu áætlunina gegn fátækt barna og haldi áfram að láta verkin tala.

Höfundur er þingmaður og skipar annað sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×