Áframhaldandi vaxtahækkanir Seðlabankans gætu haft töluverð áhrif á fjárhag heimila með óverðtryggð íbúðalán og geta áhrifin á greiðslubyrði auðveldlega numið tugum þúsunda. Hafa hækkanirnar mest að segja fyrir fólk sem hefur gengið langt í skuldsetningu.
Breytilegir vextir náðu lágmarki í byrjun þessa árs þegar vextir íbúðalána bankanna að meðaltali 3,4%. Í nýju mánaðaryfirliti stefnumótunar og greiningar ASÍ er nefnt dæmi um 50 milljóna króna jafngreiðslulán sem var með um 190 þúsund króna greiðslubyrði í upphafi árs.
Í dag eru breytilegir vextir í kringum 3,7% og greiðslubyrði lánsins hefur því hækkað um níu þúsund krónur á mánuði. Hefði stýrivaxtahækkun Seðlabankans að öllu leyti miðlast í vexti væru þeir 4,15% og greiðslubyrðin hækkað um 22 þúsund á mánuði. Stýrivextir voru hækkaðir í 2% á miðvikudag en þeir voru 0,75% á í byrjun árs.
„Fari stýrivextir áfram hækkandi er ljóst að áhrif vaxtahækkana geta verið veruleg á heimili. Breytilegir óverðtryggðir vextir voru um 6% fyrir heimsfaraldur og gæti greiðslubyrði ofangreinds láns hækkað um rúmlega 80 þúsund krónur á mánuði þróist vextir í átt að fyrra vaxtastigi,“ segir í mánaðaryfirliti stefnumótunar og greiningar ASÍ.
Hærra húsnæðisverð vegi upp á móti lægri vöxtum
Vaxtastig er í dag lægra en fyrir heimsfaraldur, en á móti hefur húsnæðisverð farið hækkandi. Verð á 90 fermetra íbúð í Reykjavík er í dag að jafnaði um 55,4 milljónir og ef skoðuð er greiðslubyrði af láni sem notað væri til kaupa, með 20% eigið fé, væri mánaðarleg greiðslubyrði í dag 176 þúsund krónur.
Ef farið væri aftur til ársins 2017, kostar sambærileg íbúð 40,5 milljónir og greiðslubyrði af láni einnig um 176 þúsund krónur á mánuði af um 12 milljóna lægra láni. Greiðslubyrði fyrstu kaupenda er í dag að raungildi um 12% lægri en árið 2017, samkvæmt greiningu ASÍ.
Í mánaðaryfirlitinu segir að áframhaldandi hækkun vaxta muni þrengja verulega að fyrstu kaupendum með aukinni greiðslubyrði á næstu misserum ef spár um þróun fasteignaverðs og vaxta gangi eftir.
Kaupendur þyrftu þá að koma inn á markað með sögulega háu raunverði og vaxandi fjármögnunarkostnaði. Líklegt sé að ásókn heimila í verðtryggð lán muni aukast í kjölfarið.