Í gærkvöldi kom í ljós að mygla væri til staðar í hluta Hagaskóla sem hýsir níunda bekk og féll kennsla árgangsins því niður í dag. Strax og málið kom upp var leitað að nýjum stað fyrir bekkinn en kennsla mun hefjast strax á morgun í Hagaskóla. Verður bekkurinn þar fram að jólum.
Fyrr í mánuðinum fannst mygla í álmu áttunda bekkjar og fer kennsla þeirra nú fram á Hótel Sögu. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla segir líðan nemenda góða þrátt fyrir allt.
„Auðvitað er svolítið sérstakt að vera í Hagaskóla akkúrat í dag, það er einn árgangur úti á Hótel Sögu og það er einn árgangur heima í dag,“ segir Ingibjörg. „Hér eru rúmlega 600 nemendur í húsi að öllu jöfnu en aðeins 200 í dag, þannig það er ólíkt því sem er að öllu jöfnu.“
Eftir að mygla kom upp í álmu áttunda bekkjar var allt húsnæðið tekið til skoðunar. Við það kom einnig í ljós að rakaskemmdir hafi fundist í álmu tíunda bekkjar og segir Ingibjörg ekki útilokað að mygla leynist einnig þar.
Verkfræðistofan Efla vinnur nú að frekari greiningu á niðurstöðum og endanlegri ástandsskýrslu. Að sögn Ingibjargar er ómögulegt að segja hversu langan tíma endurbætur muni taka og hversu langt þurfi að ganga.
„Þetta er bara svo nýskeð að það þarf bara aðeins lengri tíma til að átta sig á því. Niðurstöður um níunda bekkinn komu bara í ljós í gær. Þannig það er verið að bregðast strax við og síðan verður farið í að finna einhverja lausn til lengri tíma, ef þess þarf,“ segir Ingibjörg.