Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ákvað fyrr í kvöld að veita veitingastöðum undanþágu frá hertum samkomutakmörkunum á morgun, Þorláksmessu. Áður stóð til að veitingastaðir fengju aðeins að taka á móti tuttugu gestum í hverju rými en samkvæmt undanþágunni fá veitingamenn að taka á móti allt að fimmtíu gestum í einu, í samræmi við fyrri takmarkanir. Takmörkun á opnunartíma helst þó óbreytt og ber veitingastöðum að loka klukkan 21 í stað 22.
Veitingarekstur þungur róður í faraldrinum
Björn Árnason, stjórnarmaður í Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, hefur verið í miklum samskiptum við heilbrigðisráðuneytið í dag. Hann telur að hlustað hafi verið á gagnrýni þeirra að einhverju leyti en óráðlegt hafi verið að veita ekki undanþágu frá skertum opnunartíma.
„Við hefðum viljað fá þennan klukkutíma í viðbót. Það er mjög erfitt fyrir veitingastaði að tvísetja á kvöldi eins og á morgun þó að við séum með fimmtíu manns inni. Það er þrengra um fólk inni á veitingastöðum þegar það eru fimmtíu inni í staðinn fyrir tuttugu þannig að við héldum að [heilbrigðisráðuneytið] myndi átta sig á þeim rökum,“ segir Björn.
Tekjurnar í desember skipti sköpum
Björn fagnar því þó að komið hafi verið til móts við rekstraraðila en telur þetta ekki bjarga málunum. Takmarkanir hafi verið í langan tíma og rekstur hafi verið erfiður í faraldrinum. Desembermánuður sé einn stærsti mánuður ársins í veitingarekstri og jafnan rólegt yfir rekstrinum fyrstu mánuðina eftir áramót. Tekjurnar í desember skipti veitingamenn sköpum.
„Stemningin er náttúrulega orðin frekar súr yfir höfuð. Það er rúmur mánuður síðan takmarkanir voru hertar. Við höfum enn ekkert heyrt frá stjórnvöldum og hvað þau ætla að gera til að koma til móts við veitingageirann sem er frekar sorglegt fyrir okkur. Fólk er orðið langþreytt,“ segir Björn Árnason, stjórnarmaður í Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði.