Svo hófst umræðan um frábæran leik Ómars Inga í fjögurra marka sigri Íslands á Portúgal á EM í handbolta. Ómar Ingi, líkt og nær allir í íslenska liðinu, átti einkar góðan leik og var farið yfir frammistöðu hans í EM-hlaðvarpi Seinni bylgjunnar.
„Hann var alveg geggjaður í leiknum í gær, og mér fannst Aron í rauninni geggjaður líka. Hann var í aðeins meira flæði í leiknum, hann var ekki að þvinga þetta. Hann tók vissulega eitt og eitt skot sem hefði mátt vera betur tímasett.“
„Það sem þeir ætla augljóslega að gera er að setja Ómar Inga ítrekað á þennan númer 24 í fyrri hálfleik, svo ræðst hann bara á hann. Hann vann það einvígi ítrekað. Það skapaði kannski ekki fyrstu stoðsendinguna en þetta upplegg virkaði 100 prósent fannst mér. Þetta hjálpaði honum líka og við sáum Ómar Inga í geggjuðum fíling,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson um frammistöðu Ómars Inga gegn Portúgal.
„Mér fannst það svolítið flott í gær, það var enginn að taka of mikið af skarið. Þeir tengdu vel saman sem lið. Ég held að við höfum grætt á því að vera ekki með neina æfingaleiki, þannig menn komu fullir sjálfstraust inn í þetta. Algjörlega að byrja á núlli, liðið var miklu skýrara – hlutverkin,“ bætti Róbert Gunnarsson við.
„Nú er bara Ómar á einhverri öldu og hann mætir eins og hann væri að fara inn í leik með Magdeburg. Segjum að hann hefði ekki verið spes í æfingaleikjum en hinar hægri skytturnar frábærar, það hefði verið erfiðara fyrir hann og þjálfarateymið,“ sagði Robbi að endingu.
EM-hlaðvarpið má hlusta á í heild sinni hér að neðan en umræðan um Ómar Inga hefst eftir tæplega átta mínútur.