Lögreglan segist ekki hafa burði í að fjarlægja mótmælendurnar en mótmælendur hafa komið fyrir tugum vörubíla á vegum Kanada nærri landamærum Bandaríkjanna. Bílarnir hindra flutning matvæla og annarra vara yfir landamærin.
Lögreglustjóri Ottawaborgar telur að til þess gæti komið að lögregla þurfi því að kalla út herinn til aðstoðar. Hann hefur þó áhyggjur af því að þá fyrst gæti komið til átaka enda kunni mótmælendur að vera vopnaðir. Guardian segir frá.
Lögreglustjórinn segir að hópur í Bandaríkjunum komi að skipulagningu og fjármögnun mótmælanna en stuðningsmenn mótmælanna víðsvegar um heim hafa safnað tæplega átta milljónum dollara á styrktarsíðunni GoFundMe, til fjármögnunar mótmælanna.
Sú sem stendur fyrir söfnuninni á netinu hefur áður sagt að bóluefni séu notuð til þess að „fækka fólki af hvíta kynstofninum,“ eins og segir í frétt Guardian.
Íbúar í Ottawa og nærliggjandi bæjum eru orðnir langþreyttir á mótmælunum. Vörubílstjórar þeyti lúðra stanslaust og verslanir og fyrirtæki hafi þurft að loka dyrum sínum vegna mótmælanna.
Mótmælendurnir gáfu út yfirlýsingu fyrr í dag þar sem þeir sögðust skilja pirring íbúa en haldi þó fastir við sitt. Vörubílarnir fari hvergi fyrr en stjórnvöld bregðist við ákallinu.