Menntaskólanum í Reykjavík var slitið við hátíðlega athöfn í Háskólabíói í gær þegar 208 nýstúdentar voru brautskráðir.
Dúx 6. bekkjar að þessu sinni var Katrín Ósk Arnarsdóttir sem útskrifaðist með aðaleinkunn upp á 9,88. Katrín stundaði nám við náttúrufræðibraut skólans. Semidúx árgangsins var Hildur Gunnarsdóttir af eðlisfræðibraut með aðaleinkunn upp á 9,87.
Alls hlaut 31 nemandi viðurkenningu fyrir að hafa hlotið ágætiseinkunn á stúdentsprófi.
Fjölmargir afmælisstúdentar voru viðstaddir athöfnina, þeirra á meðal var Bogi Ágústsson fréttamaður sem flutti ávarp fyrir hönd fimmtíu ára stúdenta sem vakti mikla lukku.
Tveir rektorar láta af störfum
Elísabet Siemsen, rektor skólans brautskráði sinn síðasta stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík. Þess má til gamans geta að undirritaður var fyrsti nýstúdentinn sem Elísabet brautskráði frá skólanum á sínum tíma.
Elísabet segir nú skilið við framhaldsskólakerfið en þar hefur hún 45 ára farsælan feril að baki.
Í ávarpi hennar kom fram að þrátt fyrir að heimsfaraldur hafi nokkuð litað skólastarfið hjá þeim nemendum sem nú eru að útskrifast hafi þeim tekist að stunda nám sitt af alúð og uppskera nú ríkulega.
Þá minntist Elísabet á þröngan húsakost skólans í vetur en vegna þess að Casa Christi, eitt húsa skólans, var dæmt ónothæft þurfti að flytja hluta starfsemi skólans annað. Hún sagði þó að bjartari tímar væru framundan enda hafi skólinn fengið til afnota húsnæði í Austurstræti sem muni verða tilbúið undir kennslu í haust.
Þá lætur Yngvi Pétursson, fyrrverandi rektor skólans, einnig af störfum eftir veturinn. Frá því að Yngvi hætti störfum sem rektor árið 2017 hefur hann sinnt stundakennslu í stærðfræði en samanlagður starfsaldur hans við skólann náði heilum fimmtíu árum.