Landbúnaðar- og neytendasvið Flórída-ríkis (FDACS) staðfesti á vefsíðu sinni að það væru afrískir risasniglar á svæðinu New Port Richey í Pasco-sýslu. Sniglarnir eru hættulegir mönnum af því þeir innihalda sníkjudýrið Angiostrangylus cantonensis, rottulungnaorm, sem getur valdið heilahimnubólgu, sagði Christina Chitty, upplýsingafulltrúi FDACS í viðtali við CNN.
Að sögn Chitty er talið að sniglarnir komi frá ólöglegri gæludýraverslun en í Bandaríkjunum er ólöglegt að eiga afríska risasnigla sem gæludýr. Sleppi þeir út í náttúruna geti þeir verið fljótir að ná fótfestu, þar sem þeir geta nærst á meira en 500 plöntutegundum og jafnvel fengið kalk úr gifsi og málningu húsa. Þá er erfitt að hafa stjórn á þeim af því þeir geta verpt allt að 2.500 eggjum á ári.

Sóttkvíin tók gildi 25. júní og kemur í veg fyrir að íbúar geti ferðast með snigla, plöntur eða jarðveg inn og út úr svæði sóttkvíarinnar. Hafi íbúar séð afrískan risasnigil eru þeir hvattir til að láta vita og varaðir við því að snerta sniglana án hanska af ótta við áhættuna af heilahimnubólgu.
Að sögn Chitty, ætlar FDACS að eyða þremur árum í að útrýma stofni sniglana í Pasco-sýslu, með því að beita meindýraeitrinu metaldehýði á jarðveg.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Flórídabúar lenda í innrás risasnigla en árið 2011 uppgötvaðist stofn risasniglanna í Dade-sýslu í Miami en þá tók tíu ár að útrýma sniglunum endanlega.
