Það er á brattann að sækja fyrir demókrata en vonir standa til að verulegt bakslag í baráttunni fyrir rétti kvenna til þungunarrofs muni verða stuðningsmönnum hvatning til að mæta á kjörstað.
„Ef þér stendur ekki á sama um réttinn til að velja, verður þú að mæta á kjörstað,“ sagði Biden á viðburði í Washington í gær. Biðlaði hann til fólks um að halda fast í tilfinninguna sem það upplifði þegar fregnir bárust af því að hæstiréttur landsins hefði snúið niðurstöðunni í Roe gegn Wade.
Ákvörðun hæstaréttar blés báðum fylkingum í brjóst en Biden sagði kosningarnar í nóvember í raun snúast um tvo valkosti; hvort menn vildu veita repúblikönum umboð til að koma á allsherjar banni gegn þungunarrofi á landsvísu, eða festa rétt kvenna til þungunarrofs í lög.
Meirihluti Bandaríkjamanna er fylgjandi þungunarrofum en kannanir benda hins vegar til þess að efnahagsmál séu í forgrunni hjá kjósendum.