Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur starfaði sem aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki árin 2007 til 2009. Hún segir nýjustu vendingar alls ekki koma á óvart.
„Það bara þannig að það er svo óskaplega margt sem búið er að semja um í svona samstarfi. Og það er búið að semja um það í þessu samstarfi núna í mörg ár. Það er bara alls ekki einfaldur hlutur og í rauninni næstum því ógjörningur; að ætla sér að setjast þarna inn eins og ekkert hafi í skorist og búast við því að allir aðrir taki því eins og það sé sjálfsagt,“ segir Kristrún.
Trúnaðarsamband Bjarna og Katrínar
Heimildir fréttastofu innan raða Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks segja stjórnarsamstarfið oft reyna á, en trúnaðarsamband og traust milli formanna flokkanna, Bjarna og Katrínar Jakobsdóttur, sé grundvöllur þess að samstarfið hafi gengið hingað til.
„Og ég held að það sé enginn vafi á því og það viti það allir sem tengjast íslenskum stjórnmálum að þarna hafi myndast mikið trúnaðarsamband og ég undanskil þar heldur ekki formann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga,“ segir Kristrún.
Ekki víst að Guðlaugur hafi stjórnað atburðarásinni
Þetta samband segja heimildarmenn að sé ekki til staðar milli Guðlaugs og Katrínar, eða Sigurðar Inga. Kristrún segir erfitt að sjá fyrir sér að aðrir flokkar geti myndað ríkisstjórn eins og þingið er skipað núna. Því sé líklegt að blásið verði til þingkosninga, falli sitjandi stjórn.
„Það er alveg öruggt að Guðlaugur Þór er að opna á möguleika miklu fleiri aðila heldur en sín. Og það er ekkert víst að það sé endilega hann sem hafi stjórnað atburðarásinni.“
Þetta eru aðeins stærri kosningar heldur en bara um formann Sjálfstæðisflokksins?
„Akkúrat, þetta er miklu, miklu stærra mál,“ segir Kristrún að lokum.
Fjallað var ítarlega um formannskosningarnar í kvöldfréttum Stöðvar 2.