Hvorki herstjórnin né sendiráð Frakklands hefur viljað veita blaðamönnum AP fréttaveitunnar upplýsingar um ástæðu þess að sendiherranum hefur verið vikið úr landi.
Frakkar hafa verið með hersveitir í vesturhluta Sahel-svæðisins svokallaða frá 2013 en vígamönnum á vegum Al-Qaeda og Íslamska ríkisins hefur vaxið mikið ásmegin þar. Þúsundir hafa látið lífið í átökum á svæðinu og nærri því tvær milljónir íbúa Búrkína Fasó hafa þurft að flýja heimili sín vegna átakanna.
Sahel-svæðið er þurrt svæði suður af Shara-eyðimörkinni. Valdarán í Malí, Tjad og Búrkína Faso eru sögð hafa grafið undan samskiptum Frakka við þau ríki og gefið vígamönnum á Sahel-svæðinu byr undir báða vængi.
Aukin umsvif Rússa
Franskir hermenn fóru frá Malí í fyrra eftir að samband ríkjanna versnaði verulega í kjölfar valdaráns hersins og aukinna umsvifa Rússa í Malí. Hundruð franskra hermanna halda þó enn til í Búrkína Fasó.
Sjá einnig: Flytja alla hermenn frá Malí vegna versnandi samskipta við herstjórnina
Núverandi herstjórn Búrkína Fasó tók völdin af annarri herstjórn í fyrra og var valdaránið réttlætt með því að fyrrverandi herstjórnin hefði ekki gert nóg til að binda enda á átökin í landinu. Það var einmitt sama ástæða og fyrri herstjórnin gaf þegar hún tók völdin af ríkisstjórn landsins nokkrum mánuðum áður.
Sjá einnig: Herinn rænir völdum í Búrkína Fasó
AP segir að árásum vígamanna hafi fjölgað og umfang þeirra aukist frá því herstjórnin tók völdin í Búrkína Fasó. Vígamenn hafa meðal annars setið um heilu bæina og hafa sérfræðingar áhyggjur af því að tugir þúsunda eigi hættu á því að lenda í hungursneyð.
AP hefur eftir sérfræðingi í málefnum Vestur-Afríku að ákvörðun herstjórnarinnar muni mögulega leiða til deilna við önnur ríki á svæðinu þar sem stefnan sé sett á aukið lýðræði.
Sakaðir um glæpi og ódæði
Rússar hafa sent málaliða á vegum Wagner Group til Malí og Búrkína Fasó. Málaliðahópurinn er í eigu rússneska auðjöfursins Yevgeny Prigozhin en sá hefur lengi verið kallaður „kokkur Pútíns“ vegna náinna tengsla hans við forseta Rússlands. Hann stofnaði málaliðahópinn eftir innrás Rússa í Úkraínu árið 2014 en hópnum hefur verið lýst sem „skuggaher Rússlands“ og hafa málaliðar á vegum Wagner verið virkir í Afríku, Mið-Austurlöndum og í Úkraínu.
Málaliðar Wagner hafa víða verið sakaðir um grimmileg brot. Evrópusambandið beitti Wagner Group og menn sem að málaliðahópnum koma refsiaðgerðum í fyrra. Sambandið sagði málaliða Wagner hafa brotið gegn mannréttindum fólks og framið ýmis brot eins og pyntingar, aftökur og ógnanir gegn óbreyttum borgurum.