Skoðun

Öll vötn falla til Hafnar­fjarðar

Haraldur F. Gíslason skrifar

Það hefur lengi legið ljóst fyrir að löngu er orðið tímabært að stíga það skref að stilla af starfstíma leik- og grunnskóla. Kennarar á leikskólastiginu hafa undanfarin ár valið í of miklum mæli að kenna á grunnskólastiginu. Launin hafa verið nákvæmlega eins hjá leik- og grunnskólakennurum síðan 2014 en ólíkur starfstími hefur verið helsta ástæða þess hvers vegna flæðið á milli skólastiganna er kennurum á leikskólastiginu í óhag.

Hafnarfjarðarbær hefur nú fyrst allra sveitarfélaga stigið það skref að stilla af starfstíma leik- og grunnskóla í samvinnu kennara á leikskólastiginu og í samstarfi við Félag leikskólakennara. Hafa allir 17 leikskólar Hafnarfjarðarbæjar samþykkt tillögu þess efnis í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Félags leikskólakennara í skólunum. Markmiðið er að búa til aðlagandi starfsaðstæður fyrir kennara á leikskólastiginu, fjölga kennurum í leikskólum sveitarfélagsins, auka þar með fagmennsku og bæta gæði náms börnum til heilla. Í lögum 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er kveðið á um að 2/3 (67%) hlutar þeirra er sinna uppeldi og menntun í leikskólum eigi að hafa leyfisbréf kennara. Hlutfallið var 28% árið 2020 í leikskólum sem reknir eru af sveitarfélögum og aðeins 19% í einkareknum leikskólum. Þessu vill Hafnarfjarðarbær breyta og er tilbúinn að stíga markviss skref svo það takist.

Í leikskólum Hafnarfjarðar var kosið meðal kennara um fulla styttingu eða 36 stundir á viku en viðvera verður áfram 40 stundir á viku yfir árið. 26 dagar á ári eru teknir út í svokölluðum „Betri vinnutíma í leikskólum“ um jól, páska, sumar og í vetrarfríi. Ávinnast þeir með uppsöfnun styttingar vinnuvikunnar og 3 dagar verða veittir til endurmenntunar. Skólaár í leik- og grunnskólum er því orðið sambærilegt hjá Hafnarfjarðarbæ. Betri vinnutími í leikskólum og nýtt skólaár hefur tekið gildi og fyrsta úttekt á „Betri vinnutíma í leikskóladögum“ var núna um jólin 2022.

Það er vert að hrósa Hafnarfjarðarbæ fyrir þá forystu sem sveitarfélagið hefur tekið í því að bæta starfsaðstæður kennara á leikskólastiginu. Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni og hvort þetta skref muni fjölga leikskólakennurum í leikskólum sveitarfélagsins og jafna flæðið á milli skólastiganna.

Er það okkar von að önnur sveitarfélög fylgi í kjölfarið.

Höfundur er formaður Félags leikskólakennara.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×