Í tilkynningu um fjármögnunina segir að hún verði notuð til endurfjármögnunar á eldri lánum félagsins, en með skuldabréfaútboðinu sé Isavia að tryggja sér fjármagn á hagstæðum kjörum til lengri tíma. Fjármagnið verði einnig notað til að styðja við uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.
Fjármögnunin hafi verið framkvæmd í einum áfanga í ágúst 2023 og skuldabréfin gefin út til sjö til tólf ára. Umsjónaraðili skuldabréfaútgáfunnar hafi verið DNB Markets Inc.
Í tilkynningu er haft eftir Ingibjörgu Arnarsdóttur, framkvæmdastjóra mannauðs- og fjármála hjá Isavia, að skuldabréfaútgáfan skili Isavia hagstæðri endurfjármögnun.
„Við erum í dag að fjármagna okkur á mun betri kjörum en bjóðast á innlendum markaði - þannig að skuldabréfaútgáfan styrkir félagið verulega í þeirri mikilvægu þróun sem stendur yfir á Keflavíkurflugvelli.“
Þá sýni fjárfestar félaginu mikið traust í þessari fyrstu skuldabréfaútgáfu félagsins. Móttökurnar hafi verið afskaplega góðar hjá fjárfestum.
Isavia er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins sem sér um rekstur og viðhald flugvalla á Íslandi og flugleiðsöguþjónustu á flugstjórnarsvæði Íslands