Ákvörðun Bjarna Benediktssonar, utanríkisráðherra, um að frysta greiðslurnar hefur verið umdeild en hún var tekin strax í kjölfarið á ásökunum Ísraelsstjórnar á hendur tólf starfsmönnum UNRWA um að hafa komið að hryðjuverkunum þann 7. október.
Ákvörðunin hefur verið umdeild í ljósi þeirrar mannúðarkrísu sem nú ríkir á Gasa en við íbúunum blasir við yfirvofandi hungursneyð ofan á alla eyðilegginguna og dauðsfalla óbreyttra borgara.
Ákvörðunin hefur líka verið gagnrýnd vegna skorts á samráði en nokkrir stjórnarþingmenn sögðu að betur hefði farið á því ef Bjarni hefði ráðfært sig við utanríkismálanefnd þingsins áður en ákvörðunin var tekin og lýst yfir. Nefndin fundaði um málið í morgun.
Eftir þennan fund, ertu sæmilega sáttur við þær röksemdir sem voru settar fram í kjölfarið?
„Nei, ég er ennþá sama sinnis. Við hefðum átt að fara slóð Íra, Norðmanna og Spánverja og greiða áfram en ekki bíða með þær þar til annað kemur í ljós ekki síst vegna þess að ráðherrann segir sjálfur að það hafi ekkert staðið til að senda peningana út um helgina. Ég er líka ósammála ráðherra um að það hafi ekki verið nein ástæða til að ræða málið við utanríkismálanefnd eða inni í ríkisstjórn og þar er hann jafnframt mjög ósammála forsætisráðherra greinilega,“ segir Logi og vísar til andsvara Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra við fyrirspurn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata. Þar sagði hún í pontu Alþingis:
„Svo vil ég bara segja það hér líka að það er mjög mikilvægt og hefði betur farið á því að það hefði verið gert fyrr, fyrir þessa ákvörðun, að utanríkismálanefnd Alþingis væri höfð með í ráðum.“
Skynjarðu mikinn hljómgrunn í þinginu um að það hefði í rauninni verið betri ákvörðun að halda áfram greiðslum?
„Það eru skiptar skoðanir og þó verð ég nú að segja að mér finnst ráðherra hafa slegið aðeins úr og hann hefur auðvitað sagt að það sé ekkert því til fyrirstöðu að greiða þessa peninga inn ef rannsókn leiði það í ljós að úrbætur hafi verið gerðar. Það kom líka fram að það getur orðið veruleg krísa ef framlög berast ekki inn í febrúarmánuði og nú á rannsóknin að taka einn mánuð, þannig að við vonum það besta,“ segir Logi Einarsson.