Skoðun

Með rétt­lætið að leiðar­ljósi

Bergdís Sigurðardóttir skrifar

Alls gefa tólf efnilegir einstaklingar kost á sér til embættis forseta Íslands. Lýðræðisveisla 2024! Látum ekki telja okkur trú um að forsetakosningarnar séu keppni á milli tveggja liða, með eða á móti fyrrverandi forsætisráðherra. Tökum þátt í veislunni og skoðum allt sem er á boðstólnum.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar er sérlega hæfur frambjóðandi. Hún býr yfir öllum þeim kostum og eiginleikum sem prýða góðan forseta að viðbættri yfirgripsmikilli reynslu úr stjórnkerfinu og þekkir vel valdheimildir forsetaembættisins.

Það sem greinir Helgu hvað helst frá öðrum frambjóðendum er sérþekking hennar á tæknibyltingunni sem við göngum nú í gegnum. Í flóknum stafrænum heimi hefur Helga staðið vörð um persónuupplýsingar þjóðarinnar síðastliðin átta ár. Hún hefur staðið keik með almenningi gagnvart stórfyrirtækjum, sem í hagnaðarskyni ásælast viðkvæmar upplýsingar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Helga þekkir vel tækifærin sem nútímatækni býður upp á en einnig þær áskoranir sem hún hefur í för með sér. Það hefur margoft komið fram í rannsóknum að með tilkomu snjalltækja hafi vanlíðan ungmenna farið vaxandi og brýnna aðgerða er þörf. Forseti Íslands getur verið leiðandi í slíkri umræðu því oft var þörf en nú er nauðsyn.

Ég hef þekkt Helgu í 40 ár og veit að hún mun leiða þjóðina til aukinnar velferðar með hlýju og visku. Hún er óháð pólitískum öflum og hefur ekkert að fela. Helga segir ekki eitt og meinar annað. Hún hefur sýnt heiðarleika, gagnsæi og festu í öllum sínum störfum, tekur ígrundaðar ákvarðanir og lætur ekki fulltrúa sérhagsmuna segja sér fyrir verkum. Ég treysti Helgu. Réttlætið er hennar leiðarljós.

Höfundur er sjálfstætt starfandi hönnuður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×