Skoðun

Að vaxa inn í fram­tíðina

Viðar Hreinsson skrifar

Engin(n) er forsniðin(n) í forsetaembættið. Það er hægt að láta líta svo út, með fáguð svör á reiðum höndum, úr mælskukeppni stjórnmálabaráttunnar sem hefur þynningaráhrif á hugsunina, ellegar úr söluræðum viðskiptalífins sem setur mannlífi þröngar skorður. Það þarf að hyggja að því sem í fólki býr, því þar eru möguleikarnir og vísir að framtíðinni.

Ung og glæsileg kona sem er alin upp í borg (bæði blokk og einbýlishúsi) og sveit, kann að taka á móti lömbum (og gæti alveg talað við erlend stórmenni í símanum á meðan), hagvön jafnt á Síðuafrétti sem hásölum menntastofnana og stjórnkerfis, stendur vörð um almannahag og ann náttúru landsins, heillar alla sem hún hittir á augabragði með hlýju og glaðlegu yfirbragði, sú kona er ekki forsniðin í forsetaembættið heldur mun hún vaxa í það.

Halla Hrund Logadóttir hefur þegar sýnt að hún er reiðubúin að taka hiklaust til varna fyrir almannahag og náttúru. Hún býr yfir fágætum meðfæddum hæfileikum, staðgóðri menntun, dómgreind og þroskuðum skilningi á samhjálp og samvinnu. Því er vart hægt að hugsa sér öflugra mótvægi við þá spillingu blöndnu stjórnmálastarfsemi sem hefur dregið jafnt og þétt úr virðingu fólks fyrir Alþingi og klofið fólk í fylkingar.

Með augljósa mannkosti í farteskinu getur Halla Hrund hlúð að svo mörgu í embætti forseta Íslands. Hún getur sett brýn málefni á dagskrá, stuðlað að umræðu til að lyfta fólki úr úreltum pólitískum hjólförum og dregið úr þeirri skautun sem nú er svo áberandi og sársaukafull. Hún getur greint tækifæri framtíðar og brugðist við ógnum sem við blasa.

Halla Hrund Logadóttir er ekki forsniðin til embættis heldur mun hún vaxa í það, með bjartsýni, mannúð og sátt við náttúru að leiðarljósi sem mun búa í haginn fyrir börn okkar og barnabörn. Kjósum hana sem forseta, leiðtoga til framtíðar.

Höfundur er bókmenntafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×