Skoðun

Skilum skömminni

Elín Birna Olsen skrifar

Jæja. Búið að tilkynna að leikskóli sonar míns fari í ótímabundið verkfall 10. desember.

Fyrstu viðbrögð:

🔸️Svolítið panikk

🔸️Hræðsla við að þurfa að verða launalaus í ákveðinn tíma, eða réttara sagt, ótímabundið, sem er mjög hræðilegt

🔸️Reiði við sveitarfélögin fyrir aðgerðarleysi þeirra

🔸️Pælingar um hvort eða hvernig ég geti reddað pössun svo ég geti unnið og haldið heimilinu á floti

🔸️Hræðsla við það hvernig nemendur mínir muni taka þessu verkfalli og þá fjarveru minni þar sem ég veit hvað það hefur mikil áhrif á þau ef ég er veik í nokkra daga, hvað þá ef ég verð frá vinnu ótímabundið, ég er nefnilega sjálf starfandi sem grunnskólakennari

🔸️Reiði við ríkisstjórnina sem lætur eins og þetta skipti þau engu máli!

Það sem kom ekki:

⭕️ Reiði við KÍ

⭕️ Reiði við leikskólakennara barnsins míns sem samþykktu að fara í verkfall

⭕️Hneykslun á að verkfallið sé ótímabundið

Ég hef fullan skilning á þessum aðgerðum. Það væri fullkomin hræsni af mér að verða brjáluð út í skólann, KÍ eða kennarana. Þessar aðgerðir eru engan veginn það sem kennarar vilja standa í. Þetta er ill nauðsyn og ég styð þessar aðgerðir heilshugar.

Hinsvegar myndi ég varla vilja vera sveitarstjórnarmaður eða -kona á Akureyri núna. Ég get nefnilega verið óþreytandi þegar ég þarf að berjast fyrir því sem ég trúi á. Daginn sem leikskóli barnsins míns fer í verkfall mun ég mæta niður í ráðhús hérna á Akureyri og heimta að sveitarfélagið ræði við mig og vonandi fleiri foreldra sem lenda í sömu aðstæðum. Ég mun láta heyra í mér endalaust þangað til og þar á eftir og gera það sem ég get til að pressa á AÐ ÞAÐ VERÐI STAÐIÐ VIÐ GEFIN LOFORÐ, UNDIRRITUÐ AF STARFANDI RÍKISSTJÓRN ÁRIÐ 2016, OG ÉG VIL FÁ LAUNALEIÐRÉTTINGU FYRIR ALLA SEM STARFA HJÁ KÍ. Í rauninni væri réttast að fá launaleiðréttingu, afturkræft til 2017, því þá var þeim helmingi samkomulagsins sem hentaði sveitarfélögunum komið í gagnið. Kennarar hafa því orðið af launaleiðréttingunni síðan 2017!

Ég er brjáluð... en út í þá sem eiga það skilið, viðsemjendur kennara, því þeir eiga að standa við undirritaða samninga og gera það STRAX! Nú er bara að vona að það verði samið sem allra allra fyrst, það er nefnilega hægt að leysa þetta mál á morgun ef vilji væri fyrir hendi hjá SÍS og ríkinu. En þeir halda áfram að fela sig á bakvið fjölmiðla sem virðast einungis sýna einhliða fréttir sem eru gerðar til að æsa fólk upp á móti kennurum á meðan viðsemjendur kennara halda sig í skuggunum.

Skilum skömminni þangað sem hún á heima, hjá þeim sem standa ekki við gefin loforð og samninga. Skömmin er ekki kennara fyrir að vilja fá það sem þeim var lofað, fyrir 8 árum síðan. Semjið strax við kennara!

Áfram kennarar!

Höfundur er grunnskólakennari á Akureyri og móðir leikskólabarns




Skoðun

Sjá meira


×