Skoðun

Borgið lausnar­gjaldið

Ólafur Hauksson skrifar

Kennarasambandið hefur boðist til að hætta ótímabundnu verkfalli á fjórum leikskólum gegn því að sveitarfélögin borgi leikskólakennurum laun í verkfallinu.

Sveitarfélögin eiga án hiks að taka þessu boði.

Það skiptir engu máli þó mörgum þyki sérkennilegt að borga fólki laun í verkfalli og þyki það jaðra við að borga lausnargjald. Þetta tilboð er leið Kennarasambandsins til að halda andlitinu. Kennarasambandið viðurkennir að þetta örverkfall í nokkrum leikskólum hafi verið tóm vitleysa, en pínir sveitarfélögin til að kyngja skítnum með sér.

Það er meira en sjálfsagt að sveitarfélögin taki þátt í leiknum með Kennarasambandinu. Þau hefðu hvort sem er þurft að borga launin. Þau tapa engu.

Að vissu leyti má virða forystu Kennarasambandsins fyrir að sjá að sér og gera þetta tilboð. Það sýnir skilning á því að verkfall í leikskólum hefur miklu verri afleiðingar en verkföll í grunnskólum og framhaldsskólum.

Leikskólaverkfall skellur af miklum þunga á foreldrum leikskólabarna og nánustu aðstandendum þeirra. Börn á leikskólaaldri þurfa stöðuga gæslu og umönnun, sem eldri börn þurfa miklu síður. Fyrir þau 600 leikskólabörn sem hafa verið án leikskólans undanfarnar fjórar vikur hafa 600 fullorðnir verið frá vinnu eða öðrum verkefnum í fullu starfi að sinna litlu börnunum, oftast án launa eða með því að taka út frídaga næsta árs.

Það er svo annað mál að leikskólaverkfallið hefur ekki gárað vatnið í samningaviðræðum kennara og sveitarfélaga. Það sýnir tilgangsleysi þess og er því í raun sjálfhætt.

Samninganefnd ríkis og sveitarfélaga þarf enga skoðun að hafa á réttmæti málsins. Henni ber að sýna foreldrum og aðstandendum þessara 600 leikskólabarna skilning á stöðu þeirra og samþykkja tilboð Kennarasambandsins um greiðslu lausnargjalds.

Höfundur er afi barns í leikskóla Seltjarnarness.




Skoðun

Sjá meira


×