Handbolti

Landsliðstreyjan ekki í sölu fyrir jól

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Landsliðstreyjan fer ekki í jólapakkana í ár.
Landsliðstreyjan fer ekki í jólapakkana í ár. hsí

Ný landsliðstreyja HSÍ fer ekki í sölu fyrir jólin en stefnt er að því að hefja sölu á henni áður en HM karla hefst í næsta mánuði.

Þegar Vísir ræddi við Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóra HSÍ, 20. nóvember, sama dag og nýr búningasamningur HSÍ og Adidas var kynntur, sagðist að það kæmi von bráðar í ljós hvar og hvenær nýja treyjan færi í sölu.

„Það er í fullum undirbúningi eins og staðan er. Við vonum að við getum tilkynnt í næstu viku hvar hún fæst. Við leggjum gríðarlega áherslu á að hún fari sem fyrst í sölu og sem víðast,“ sagði Róbert.

Það hefur eitthvað tafist en samkvæmt tilkynningu frá HSÍ eru margvíslegar ástæður fyrir því að treyjan fer ekki í sölu fyrir jólin.

Í viðtalinu við Róbert sagði hann að það væri ekki jafn fjárhagslega nauðsynlegt fyrir HSÍ og áður að treyjan seljist sem mest.

„Nei, það er bara mikilvægt fyrir okkur að geta boðið upp á treyjuna okkar sem við erum stoltir af og fyrir aðdáendur okkar. Ólíkt fyrri samningum er ekki það ekki úrslitaatriði fjárhagslega fyrir okkur að hún seljist sem mest en það er að sjálfsögðu von okkar. Það er munur á eðli samningsins,“ sagði Róbert en að hans sögn er samningurinn við Adidas langstærsti búningasamningur sem HSÍ hefur gert.

Kvennalandslið Íslands spilaði í nýja búningnum á Evrópumótinu sem nú stendur yfir. Heimsmeistaramót karla hefst svo 14. janúar. Fyrsti leikur Íslands á mótinu er gegn Grænhöfðaeyjum 16. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×